Sigraði í jólalagakeppni Borgarbókasafnsins

Egilsstaðabúinn Jens Einarsson fór með sigur af hólmi í jólalagasamkeppni Borgarbókasafnsins sem haldin var fyrir skemmstu. Jens sendi inn lag sem hann samdi fyrir tæpum 20 árum og fékk þá ung börn sín til að syngja.

„Ég gerði þetta árið 2005 þegar börnin mín, Torfhildur og Vilhelm voru 8 og 13 ára. Ég vildi gefa skemmtilega jólagjöf þannig ég samdi lag og texta sem ég fékk þau til að syngja.

Torfhildur kom með tvær vinkonur sínar með sér til að mynda kór. Æskufélagi minn Grétar Örvarsson úr Stjórninni útsetti og spilaði inn tónlistina,“ segir Jens um tilurð lagsins „Það snjóar á alla“

„Ég var að grúska í tölvunni minni um daginn og rakst þá á lagið. Í nánast sömu andrá sá ég auglýsingu um lagakeppni Borgarbókasafnsins. Ég hressti aðeins upp á hljóminn í laginu og sendi það inn.“

Í frétt á vef safnsins segir að alls hafi 17 lög borist í samkeppnina víða úr heiminum. Í dómnefnd sátu Hildur Björgvinsdóttir, verkefnastjóri í deild miðlunar og nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu, Þorgrímur Þorsteinsson, tónlistarmaður og sérfræðingur í Borgarbókasafninu og Jón Ólafsson, tónlistarmaður sem var formaður. „Þau höfðu öll sérstakar mætur á krúttlegu dægurlagi með fallegum texta og góðum boðskap,“ segir þar.

Það voru Torfhildur og Vilhelm sem fóru á safnið fyrir hönd föður síns til að taka við sigurlaununum. „Það var skemmtilegt að þau voru bæði með börnin sín með,“ segir Jens.

Jens kveðst alltaf hafa haft þau í huga þegar hann samdi lagið. „Ég held að þess vegna hafi komið þessi einfaldleiki og einlægni í textann. Þau ólust bæði upp í kórnum í Kársnesskóla. Það var heppni því þau hlutu þar gott tónlistarlegt uppeldi. Mín er síðan ánægjan að hafa búið þetta til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.