Skip to main content

Skólum sínum til sóma í upplestrarkeppni Múlaþings og Vopnafjarðar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2025 10:00Uppfært 28. mar 2025 11:02

Keppendur Egilsstaðaskóla geta verið mjög sáttir við sinn hlut í Stóru upplestrarkeppninni sem haldin var sameiginlega í vikunni af Múlaþingi og Vopnafjarðarhreppi. Nemendur þaðan enduðu í 1. og 3. sæti keppninnar.

Stóra upplestrarkeppnin er lokapunktur rúmlega fjögurra mánaða æfingaferlis í 7. bekkjum grunnskóla landsins en fyrr í vikunni var Austurfrétt á staðnum þegar keppnin sú fór fram í Tónlistarmiðstöðinni meðal nemenda í Fjarðabyggð eins og lesa má um hér.

Keppendurnir úr Múlaþingi og Vopnafirði voru alls tíu talsins úr fimm mismunandi skólum og kepptu sín á milli í upplestri sem skiptist í þrjár umferðir en viðburðurinn var haldinn í Egilsstaðakirkju.

Allir keppendur hlutu viðurkenningu fyrir framlag sitt og góða gjöf en þeir nemendur sem sköruðu fram úr að þessu sinni voru þeir Bjarni Jóhann Björgvinsson úr Egilsstaðaskóla sem þótti standa sig best, Snærós Arna Daðadóttir úr Brúarásskóla varð í öðru sæti og Styrmir Vigfús Guðmundsson varð þriðji en hann kom einnig úr Egilsstaðaskóla.

Á myndinni gefur að líta hópinn allan í lok keppninnar en allt tókst framar vonum að sögn Ragnhildar Írisar Einarsdóttur, kennsluráðgjafa skólaþjónustu Múlaþings. Mynd Aðsend