Sparisjóður Norðfjarðar óskar eftir aðstoð
Sparisjóður Norðfjarðar er einn sex sparisjóða sem óskað hafa eftir aðstoð ríkisins samkvæmt nýlegum lögum um framlag ríkissjóðs til sparisjóða.
Umsókn sjóðsins fer til umsagnar hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu eru nefndir fjórir lykilþættir sem hafðir verði að leiðarljósi við mat á umsóknunum.
1. Að tryggðir verði sem fjölbreyttastir valkostir neytenda í fjármálaþjónustu.
2. Að fjármálaþjónusta verði í boði um land allt.
3. Að hagræðingu verði náð fram í rekstri sparisjóðanna.
4. Að samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna verði tryggt.
Hinir sparisjóðirnir sem sóttu um aðstoð voru Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Bolungarvíkur og Byr sparisjóður.