Spila fótbolta í sólarhring til að safna áheitum

Þriðji flokkur kvenna og karla í fótbolta í Fjarðabyggð fer sérdeilis athyglisverða leið til að safna áheitum vegna fótboltaferðar hópsins til Spánar í sumar. Þau ætla sér að spila fótbolta linnulaust í heilan sólarhring um helgina.

Ungmennin hyggjast koma boltanum af stað í fyrramálið klukkan 11 í íþróttahúsi Reyðarfjarðar og boltinn sá hættir ekki að rúlla fyrr en 24 stundum síðar á sama tíma á sunnudaginn. Maraþonfótbolti með öðrum orðum.

Aðspurð út í þetta uppátæki segir Eygerður Tómasdóttir, foreldri og tengiliður þriðja flokks fótboltans, að foreldrum og krökkunum sjálfum hafi fundist þetta góð hugmynd ef íþróttahúsið væri laust á annað borð sem reyndist svo raunin yfir þennan tíma. Bæjarráð Fjarðabyggðar leggur sitt af mörkum því afnot hópsins af íþróttahúsinu þennan tíma kostar þau ekkert.

„Hugmyndin var nú fyrst og fremst að svona nokkuð yrði frábært hópefli fyrir þá krakka sem ætla sér í þessa fótboltaferð okkar í sumar. Þétta svona raðirnar dálítið áður en að því kemur en við erum sem sagt á leið til Costa Blanca á Spáni í fótboltaferð í júlí næstkomandi og þetta er fjáröflun í því skyni.“

Margir lagt lið

Eygerður segir að allan tímann verði spilað fimm á fimm og auðvitað skipt ört um fólk á vellinum svo enginn fari nú yfir um þennan langa tíma.

„Tímasetningin tekur fyrst og fremst mið af því að þetta var eini tíminn sem til greina kom í íþróttahúsinu. Langflestir í þriðja flokknum verða með á morgun en einhverjir detta þó út því það eru nokkrir farnir í ferðalög yfir páskana og eru því ekki heima.“

Það þó ekki svo að ungmennin þurfi öll að spila hvíldarlaust allan tímann. Nokkrir hópar hafa þegar tilkynnt um aðstoð sína og ætla að etja kappi til að létta álaginu af krökkunum. Þar á meðal hópur úr grunnskóla Eskifjarðar og bumbuboltakappar úr Neskaupstað láta líka sjá sig og spila við krakkana. Almenningi er frjálst að koma líka og taka þátt líka til ef áhugi stendur til.

„Við foreldrarnir sjáum svo um að allt gangi vel. Við verðum á vakt í íþróttahúsinu sjálfu, í skólanum líka þar sem krakkarnir geta hvílst og við höfum fengið vilyrði frá fyrirtækjum á borð við Lostæti sem ætlar að styrkja hópinn með pizzum. Fyrirtækin hér og einstaklingar líka hafa tekið vel í að hjálpa okkur en við höfum um tíma verið að ganga í hús og kynna þetta. Þetta lítur mjög vel út og allir eru velkomnir á morgun að hvetja krakkana.“

Þriðji flokkur karla í leik síðastliðið sumar. Bæði þeir og stúlkurnar í þriðja flokki þurfa að sýna töluvert úthald um helgina. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.