Stækkun þjóðgarðs og skóflustunga að gestastofu

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag og undirritaði við það tækifæri reglugerð um stækkun þjóðgarðsins til norðurs. Verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.

vatnajk_khgestastofa_vefur.jpg

Í Gestastofunni á Skriðuklaustri verður sett upp kynning á þjóðgarðinum og þar verður hægt að nálgast allar upplýsingar um þjóðgarðinn og nágrenni hans, gönguleiðir, náttúrufar, sögu, þjónustu og afþreyingu. Ljúka á byggingu gestastofunnar fyrir 15. maí 2010. Gestastofur verða meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs og þaðan verður landvörslu og daglegum rekstri hvers rekstrarsvæðis þjóðgarðsins stjórnað. Gestastofan á Skriðuklaustri verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum.

 

Í ferðinni þáði umhverfisráðherra einnig heimboð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Sambandið sendi umhverfisráðherra heimboð í febrúar síðastliðnum og óskaði eftir að fá að kynna fyrir henni þau áhrif sem stóriðja hefur haft á landsfjórðunginn. Umhverfisráðherra snæddi hádegisverð í Ráðhúsinu Reyðarfirði með Helgu Jónsdóttur bæjarstýru, Guðmundi R. Gíslasyni, forseta bæjarstjórnar og Smára Geirssyni, formanni Fjarðabyggðarhafna. Umhverfisráðherra fór síðan í skoðunarferð um Reyðarfjörð og nærsvæði og heimsótti m.a. ábúendur á Sléttu sem hafa alið hreindýrskálf frá því í fyrravor. Þá spjallaði umhverfisráðherra við þau Jónínu Rós Guðmundsdóttur, formann bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og Óðinn G. Óðinsson, verkefnis og þróunarstjóra, yfir kaffibolla á Hótel Héraði. Að því loknu hélt umhverfisráðherra að Skriðuklaustri þar sem hún tók skóflustungu að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og undirritaði reglugerð um stækkun þjóðgarðsins.

  vatnaj_kortvatnaj_vefur.jpg

Heimasíða Vatnajökulsþjóðgarðs: www.vatnajokulsthjodgardur.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.