„Þýðir lítið að reyna að reikna sér önnur laun en gleðina“

Í desember síðastliðnum kom út bókin Á ferð um Fljótsdal þar sem segir frá ýmsum ævintýrum sem fjölskylda lendir í á ferðalagi sínu, jú, einmitt um Fljótsdalinn. Ýmsar verur koma þar við sögu sem hægt er að tengja mis þekktum frásögnum úr sveitinni. Svo sem þekkt er þá er töluverður kostnaður að baki því að prenta og gefa út bækur og safnar því höfundurinn, Kjartan Glúmur Kjartansson, nú fyrir útgáfunni á Karolina Fund.


„Ég er fæddur þarna og uppalinn í Fljótsdal,“ segir Kjartan Glúmur, aðspurður um hver hafi verið hvatinn að því að hann hóf skriftirnar. „Ég keypti síðan jörðina Hól í dalnum og bý þar meira og minna. Það held ég að megi segja að hafi orðið hvatinn að þessu, bæði það að vera kominn aftur á heimaslóðir og eins datt mér í hug að með þessu gæti ég búið mér til verkefni sem skipti ekki máli hvar ég væri staðsettur, ég gæti unnið við það hvar sem er.“

Kjartan Glúmur sótti um og fékk styrk úr Samfélagssjóði Fljótsdalshrepps til skrifanna og dembdi sér á kaf í þau árið 2022. Spurður hvort hann hafi áður gefið skáldagyðjunni lausan tauminn segir hann að það hafi hann ekki gert áður með þessum hætti. „Ég hef fengist dálítið við að yrkja, þá fyrsta og fremst lausavísur kannski, tækifærisvísur á þorrablótum og svo framvegis, en ekki skrif af þessu tagi. Svo þar var ég að stinga mér í djúpu laugina.“

Skrifin kláraði Kjartan Glúmur á síðasta ári og ákvað að koma bókinni frá sér. Greiddi hann prentkostnaðinn úr eigin vasa en setti sem fyrr segir upp söfnun á Karolina Fund til að athuga hvort hann gæti safnað áheitum til þess að standa undir þeim kostnaði. „Það fór ágætlega af stað og ég er enn að auglýsa söfnunina. En það hefur þó bara náðst að safna upp í einn fimmta af markmiðinu nú þegar vika er til stefnu. Svo ég veit ekki hversu bjartsýnn maður getur leyft sér að vera,“ segir Kjartan Glúmur en dregur þó ekki úr því að það væri óskandi að markmiðið myndi nást.

Náist ekki að safna upp í markmiðið sem sett var þá fellur söfnunin um sjálfa sig en Kjartan Glúmur segir að það breyti svo sem ekki öllu. Bókin sé til, prentuð hjá Héraðsprenti, og hægt festa kaup á henni hjá honum beint. Enn hafi hún ekki farið í sölu í bókabúðir, hvað sem verði.

„Fyrst og fremst fær maður gleði út úr þessu, ef ég næ upp í prentkostnaðinn þá er ég ansi góður. Það þýðir lítið að reyna að reikna sér önnur laun en gleðina fyrir þetta,“ segir Kjartan Glúmur, sem þegar er farinn af stað með næsta verkefni. Það er fólgið í að safna sögum gangnamanna í Fljótsdal, enda breytingar þær sem orðið hafa á göngum og smalamennsku orðnar gríðarmiklar síðustu áratugi. „Ég veit ekki hvort þær munu koma út á bók, fyrsta skrefið er að bjarga þessum sögum frá gleymsku með því að taka viðtöl og taka þær upp, svo þær glatist ekki. Hvað svo verður mun tíminn leiða í ljós.“

Enn eru sjö dagar eftir af Karolina söfnun Kjartans Glúms og hægt er að taka þátt í henni með því að fylgja þessum hlekk hér.

Brot úr inngangi bókarinnar má lesa hér að neðan:
Við höfðum pakkað niður fyrir sumarfríið fyrir
þrem dögum. Það átti að vera tvær vikur í frí
austur á Héraði en þar sagði pabbi að væri alltaf
besta veðrið. Við vorum þrjá daga að koma
okkur á svæðið með nokkrum stoppum á leiðinni
en það var ekkert frí aðeins undirbúningur fyrir
sæluna. Stundum fannst okkur Helga að þetta
mont í kallinum væri einum of mikið. Allt var
best þarna, kjötið, grasið, náttúran og vatnið og
hvað sem okkur gat dottið í hug að nefna. „Best í
Fljótsdalnum“ sagði hann og hló. Auðvitað var
hann ættaður þaðan en ekki búið þar lengi og
restin af fjölskyldunni aldrei og við skildum því
ekki þetta endalausa gort í honum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.