Útbúa toppaðstöðu fyrir skautafólk á Vopnafirði

Eldheitir áhugamenn um skautaíþróttina hafa nú tekið sig saman á Vopnafirði og útbúið fyrirtaks skautasvell á sparkvelli bæjarins og þar skal dansað á svellinu svo lengi sem frost verður í lofti.

Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir er ein þeirra sem tekið hafa þátt í að mynda slétt og fellt svell á sparkvellinum en til þess þarf lítt annað en frost, mikið af vatni og gott undirlag. Nú þegar hefur tekist að skapa ágætar aðstæður og hugmyndin að hugsanlega megi áhugasamir hoppa út á sléttan ísinn strax í kvöld eða á morgun að sögn Aðalbjargar.

„Við höfum verið að bæta vatni á til að ísinn verði sem þykkastur og sléttastur og hér voru menn að með brunaslöngu langt fram á síðustu nótt. Við bjartsýn á að hægt verði að setja undir sig skautana og rúlla af stað í kvöld eða á morgun. Svo ætti það að haldast flott eins lengi og gott frost verður í lofti. Þetta eru nú fyrst og fremst maðurinn minn og vinnufélagi hans sem hafa gert þetta að veruleika.“

Þeir bæjarbúar sem búa svo vel að eiga skauta hafa vissulega getað fundið staði til að renna sér á það sem af er þessum vetri en það jafnan á ósléttu undirlagi svo töluverða leikni þarf til að fólks haldist upprétt á skautunum. Með því að gera þetta á sparkvellinum eru tvær flugur slegnar í einu því ekki aðeins er auðveldara að skauta um heldur og hægt að halda sér í viðargirðingu þá sem umkringir völlinn. Slíkt er nánast lágmarkskrafa ef óvanir ætla sér að prófa án þess að eyða meiri tíma láréttir en lóðréttir.

Aðalbjörg gælir við að ef frost helst töluvert, eins og spár gefa til kynna þegar þetta er skrifað, að blása, ekki í skötuveislu heldur skautaveislu, á Þorláksmessukvöld.

„Við eigum sjálf slatta af skautum og ætluðum að reyna að útvega okkur fleiri slíka þannig að fleiri geti komið og prófað þetta því það væri gaman af það fjölgar í hópnum. Svo langar okkur mikið til að halda smá jólagleði á Þorláksmessu. Skreyta völlinn með jólaljósum, hafa jólatónlist og bjóða upp á heitt kakó og kökur. Það væri afskaplega gaman að sjá sem flesta og gera þetta skemmtilegt fyrir alla bæjarbúa.“

Önnur umferð af vatni sett á sparkvöllinn á Vopnafirði í gærkvöldi. Ein umferð til af úðun ætti að skapa kjöraðstæður til skautaiðkunar. Mynd aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.