Varðskipið komið með smyglskútuna til Eskifjarðar
Varðskipið Týr er lagst við bryggju á Eskifirði og er með smyglskútuna, sem það stöðvaði og tók í tog í fyrrakvöld í hafinu milli Íslands og Færeyja, við stjórnborða. Týr lagði að um áttaleytið í morgun. Lögregla hafði töluverðan viðbúnað er skipið kom til hafnar. Þrír voru handteknir um borð í skútunni í fyrrakvöld, tveir Íslendingar og Hollendingur og verða þeir nú færðir fyrir Héraðsdóm Austurlands. Þar verða þeir yfirheyrðir og ákvörðun tekin í framhaldi af því um að óska eftir gæsluvarðhaldi. Að því búnu fara þeir í fylgd lögreglu með almennu farþegaflugi til Reykjavíkur í dag.
Skútan verður rannsökuð í dag og athugað hvort þar leynist meira af fíkniefnum. Hún flutti rúm 109 kíló af efnum til Íslands. Hún er fjörutíu fet að stærð, skráð í Belgíu og nefnist Sirtaki. Að sögn Morgunblaðsins í dag var það áhöfn á fiskiskipi sem var að veiðum suðaustur af landinu sem gerði lögreglu viðvart um skútuna á laugardaginn var. Skútan var þá á leið til landsins og sjómönnunum þótti grunsamlegt að sjá skútu þarna á þessum árstíma.
Mynd/Landhelgisgæslan