Viðbragðsaðilar austanlands kynna sig og sitt á 112 deginum á sunnudag

Á sunnudaginn kemur verður haldinn hátíðlegur 112 dagurinn á ýmsum stöðum austanlands en þar gefst íbúum tækifæri til að kynnast starfi, tækjakosti og þeim einstaklingum sem standa vaktina fyrir okkur hin ársins hring á hverjum stað fyrir sig.

Sem fyrr er markmið þessa dags að minna á neyðarnúmerið 112 en ekki síður hafa viðbragðsaðilar gjarnan notað daginn til að vekja athygli á tilteknu þema sem ástæða þykir til að varpa ljósi. Hugmyndin að vekja vitund almennings um forvarnir, björgun, hlutverk almannavarna og annað það sem fjölbreyttur hópur viðbragðsaðila sinnir í þágu almennings hvern einasta dag ársins.

Á Vopnafirði taka sig saman slökkvilið og lögregla bæjarins auk slysavarnardeildarinnar Sjafnar og björgunarsveitarinnar Vopna þennan dag að sögn Jóns Sigurðarsonar hjá björgunarsveitinni.

„Það fer nú kannski minna fyrir að kynna neyðarnúmerið  nú á dögum enda líklega velflestir sem vita af því og þekkja. Þetta er meira um að kynna okkur og starfsemina og leyfa fólki að heyra meira um okkur en bara gegnum fréttir af einhverjum viðbrögðum okkar. Við ætlum að aka einn góðan hring í bænum klukkan 13.30 og endum ferðina við Miklagarð þar sem bæði verður hægt að sjá og skoða tækin okkar, bíla og auðvitað spjalla við okkur. Það alltaf gaman að því á þessum degi hvað krakkarnir eru oft sérstaklega spennt fyrir að skoða græjurnar okkar. Auðvitað bjóðum við svo líka upp á kaffi og meðlæti.“

Finna má nákvæmar upplýsingar um dagskrá sunnudagsins á samfélagsmiðlum hjá flestum viðbragðsaðilum landsins og á vefum sveitarfélaganna. Mynd Björgunarsveitin Vopni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.