Vistvæn innkaup hjá Fljótsdalshéraði

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti í lok síðasta árs innkaupastefnu og innkaupareglur fyrir sveitarfélagið, í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 84/2007. Umhverfisáherslur og vistvæn innkaup eru einn þáttur reglnanna.

Innkaupastefnan var unnin með hliðsjón af þörfum sveitarfélagsins, en innkaup og innkaupaaðferðir sveitarfélagsins voru tekin til skoðunar í því skyni.

innkaup.jpg

 

 

Á vef sveitarfélagsins, www.fljotdsdalsherad.is, segir að stefna Fljótsdalshéraðs sé sú að innkaup sveitarfélagsins stuðli að hagkvæmni í rekstri og hvetji um leið til nýsköpunar og framsækinnar þróunar í atvinnulífi, með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Innkaupastefnan er í samræmi við framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027.

 

Fljótsdalshérað fléttar umhverfisáherslur og vistvæn innkaup inn í innkaupareglur sínar og mun vera fyrsta sveitarfélagið til að gera slíkt með markvissum hætti. Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupandann, fyrir utan það að draga úr umhverfisáhrifum. Vistvæn innkaup geta minnkað rekstrarkostnað, aukið gæði og ekki síst geta vistvæn innkaup verið drifkraftur í nýsköpun og aukið framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem nýtist samfélaginu í heild.

Alta, ráðgjafarfyrirtæki, hefur aðstoðað Fljótsdalshérað við þessa vinnu og komu Birna Helgadóttir umhverfisfræðingur og Björg Ágústsdóttir lögfræðingur að því verki.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.