Vopnafjörður á lista yfir faldar perlur

Vopnafjörður er meðal þeirra staða sem alþjóðleg ferðatímarit mælir með sem földum perlum árið 2024.

Listinn inniheldur tíu staði sem tækifæri er til að heimsækja í ár, áður en fjöldinn uppgjötvar þá. Listanum er haldið úti af Matador Network, sem kynnt er sem stærsti sjálfstæði útgefandinn á sviði ferðaþjónustu með átta milljónir notenda í hverjum mánuði.

Vopnafjörður er þar efstur á blaði. Rakið er að þótt 1,5 milljón ferðamanna hafi komið til Íslands í fyrra finnist enn staðir utan alfaraleiðar. Vopnafjörður sé einn þeirra.

Þar búi innan við 700 íbúar sem flestir byggi afkomu sína á landbúnaði og fiskveiðum. Það séu hins vegar hvorki búfénaðurinn né fiskarnir sem laði til sín gestina heldur einstakt landslag þar sem fáir séu á ferli.

Lýst er hvernig stór og svört sandfjara sé að baki flugvellinum. Yfir þetta tvennt megi fá frábært útsýni með tveggja tíma fjallgöngu úr bænum. Á leiðinni megi sjá fugla, jurtir og fleira.

Mælt er við að koma við í Vopnafjarðarkirkju og kíkja upp á loftið til að sjá orgelið í umhverfi sem sé dæmigert fyrir norrænar kirkjubyggingar. Einnig er mælt með Selárdalslaug, Minjasafninu á Bustarfelli, hákarlahjöllum og svæðinu í kringum vitann á Kolbeinstanga.

Að auki eru á listanum Teahupo'o á Tahíti, Færeyjar, Paraca í Perú, Cavta í Króatíu, Bacalar í Mexíkó, Fukuoka í Japan, Assam á Indlandi, Osa á Kosta Ríka og Kerrville í Texas í Bandaríkjunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.