Nýtt beltatæki Landsnets reyndist vel á Hallormsstaðarhálsi

beltataeki landsnet webSérútbúið beltatæki fyrir vinnu við háspennulínur og möstur sem Landsnet hefur fest kaup á kom að góðum notum á Hallormsstaðarhálsi á dögunum þegar skipta þurfti um brotna einangra og lagfæra leiðara á Fljótsdalslínu 2.

Beltatækið, sem er einna líkast skriðdreka, er útbúið öflugum krana, snjótönn og dráttarspili og var þetta frumraun þess í snjó og vetrarfærð. Skemmst er frá því að segja að tækið reyndist mjög vel. Á meðan vel búnir fjallajeppar lentu í hálfgerðum vandræðum á leið upp hálsinn ruddi beltatækið sér auðveldlega leið um slóðana þar til komið var á fyrsta viðgerðarstað.

Skipta þurfti um brotna einangra á fimm stöðum á afmörkuðu svæði á Fljótsdalslínu 2 á Hallormsstaðahálsi og lagfæra skemmdir á leiðara á einum stað. Gekk viðgerð bæði hratt og vel, enda fer kraninn upp í allt að 38 metra hæð og auðvelt fyrir starfsmenn Landsnets að athafna sig úr körfunni, samtímis því sem öryggi þeirra er miklu meira en verið hefur.

Beltatækið kemur ekki bara að góðum notum við línuviðgerðir. Ætlunin er að nota það einnig við að hreinsa ísingu af háspennulínum og reyna m.a. þannig að fyrirbyggja skemmdir eins og þessar sem urðu fyrir nokkrum dögum á Fljótsdalslínu 2. Línan sló þá út tvisvar með um fimm tíma millibili vegna ísingar sem féll af leiðurum. Sem betur fer olli straumleysið engum truflunum hjá raforkunotendum eystra.

Nýja beltatækið er staðsett á Egilsstöðum þar sem Landsnet er með starfsstöð. Tækinu er ætlað að efla enn frekar viðbragðsgetu fyrirtækisins þegar bilanir eiga sér stað á flutningskerfinu auk þess sem það kemur einnig að góðum notum við bæði eftirlit og viðhald og í öðrum tilfallandi verkefnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.