Skip to main content
Asparglytta fannst í fyrsta skipti í ár á Austurlandi og það bæði á Egilsstöðum og í Hallormstað. Mynd Visit Austurland

Nýir alvarlegir skaðvaldar herja á skóga Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2025 13:31Uppfært 13. nóv 2025 13:37

Sléttum 20 árum eftir að bjöllutegundin asparglytta fannst fyrsta sinni á Íslandi á suðvesturhorninu hefur nú verið staðfest að tegundin er byrjuð að koma sér fyrir í skógum á Héraði. Enn nýrri landnemi, reyniglytmölur, virðist einnig hafa haldið áfram að dreifa sér í fjórðungnum en þess skaðvalds varð fyrst vart hérlendis árið 2023.

Tilkoma og aukin útbreiðsla þessara tveggja tegunda eru nógu slæmar fréttir fyrir skóga Austurlands en þar við bætist að birkiþéla, sem fyrst varð vart á Egilsstöðum fyrir fimm árum síðan, hefur dreift sér mikið frá þeim tíma. Svo mikið að Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Landi og skógum, líkir hraðri útbreiðslu hennar sem hreinum faraldri.

Fyrst fór að bera á fregnum af óvenju miklum skemmdum á trjágróðri austanlands um mitt sumarið og kenndu nokkrir skógarbændur afar hlýju vori þar um en það reyndist það allra hlýjasta sem mælst hefur á landsvísu. Þar við bættist í ofanálag hlýjasti júlí frá upphafi mælinga.

Hitastig skiptir máli

Í samtali við Austurfrétt segir Brynja stofnunina ekki hafa fengið mikið af fréttum um óvenjulegt magn skaðvalda á trjágróðri austur á landi en það segi sig sjálft að ef hitastig að vori eða sumri sé hagstætt vaxi skordýr hraðar og eignist fleiri afkvæmi. Slíkt komi þó jafnan ekki fram fyrr en ári síðar en sumarið 2024 þótti hvorki sérstaklega hlýtt né hagstætt á Austurlandi.

Hverju sem um er að kenna leiddi úttekt sem sérfræðingar Lands og skóga fóru í á svæðinu í september síðastliðnum miður góðar fréttir í ljós.

„[Úttektin leiddi í ljós] að birkiþélan, sem fannst fyrst á Egilsstöðum árið 2020, er búin að dreifa sér mikið um svæðið og má segja að í ár hafi geysað töluverður faraldur af völdum hennar á Héraði. Asparglyttan fannst í fyrsta skipti í ár á Austurlandi og fundum við hana bæði á Egilsstöðum og Hallormstað þannig að hún gæti verið víðar á svæðinu. Þetta eru ekkert sérstaklega góðar fréttir þar sem þetta er eitt alvarlegasta meindýrið á trjágróðri á Íslandi í dag.“ 

Reyniglytmölur breiðir úr sér

Þá leiddi úttekt sérfræðinganna í ljós að reyniglytmölur heldur áfram að dreifa sér en aðeins eru tvö ár síðan sú tegund fannst fyrst á Íslandi. Það er mölfluga sem er tegund skordýra sem náskyld er fiðrildum en Brynja segir að sökum þess hve tegundin sé ný hérlendis sé erfitt að meta hve stórt vandamál hún sé eða geti orðið.

„Þá kom líka í ljós að reyniglytmölur, sem finnst enn sem komið er einungis á Austurlandi, heldur líka áfram að dreifa sér. Við fundum ummerki eftir lirfu hennar á reyniberjum víða á Héraði í ár. Þessi tegund hefur áhrif á fræframleiðslu þannig að það verður hugsanlega ekki jafn mikil dreifing á reyniviði ef að hún verður mjög algeng. Erlendis getur hann farið á epli líka og þar gerir hann mikinn skaða en þar sem við Íslendingar erum ekki mikið í ávaxtarækt þurfum við kannski ekki mikið að hafa áhyggjur af því. Aftur á móti eru reyniberin mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla og ef að mikið af berjum spillist þá er það leiðinleg þróun fyrir fæðuframboð þeirra. En vonandi mun þessi tegund ekki fjölga sér það mikið að það verði vandamál en tíminn verður að leiða það ljós.