Vara við ónæmi við sýklalyfjum: Stundum betra að jafna sig í rólegheitum en biðja um lyf

petur heimisson 07Evrópudagur vitundarvakningar um sýklalyf er haldinn í dag. Tilgangur hans er að vekja athygli á þeirri hætti sem mönnum getur stafað af sýklaónæmum bakteríum og hvetja til ábyrgrar notkunar sýklalyfja. Yfirlæknir heilsugæslunnar á Egilsstöðum segir að fólk græði stundum meira á því að halda sig heima og jafna sig í rólegheitum heldur en biðja um lyf.

„Það mætti gjarnan vera meiri vitund um að það er miklu öruggara að vera lengur heima og jafna sig af pestinni heldur en koma alltof snemma og biðja um lyf," segir Pétur Heimisson, yfirlæknir á Egilsstöðum.

„Ef einstaklingur er mjög upptekinn af því að hann þurfi sýklalyf þegar hann mætir til læknis, því hann hefur alist upp við það hjá okkur læknunum að við gefum sýklalyf, þá eru meiri líkur á að hann gangi þaðan út með lyf.

Stundum tekur meira en þrjá daga að lækna pestir, oft viku eða tvær. Ef sjúklingurinn er betur upplýstur og veit að það er ávinningur af því að gefa líkamanum þann tíma sem hann þarf til að vinna sitt verk er líklegra að hann sýni þá þolinmæði," segir Pétur.

Hann ítrekar þó að menn eigi aldrei að óttast að leita lækningar séu þeir mikið veikur. „Að sjálfsögðu þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig. Ef menn eru mikið veikir og með verki verður að beita lyfjum. En vitundarvakning sem þessi gerir fólk færara um að meta ástand sitt sjálft."

Fræða foreldra ungra barna

Þetta er í sjötta sinn sem dagurinn er haldinn. Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og fleiri heilsuverndarstofnanir telja að sýklaónæmi sé vaxandi í álfunni og ein helsta heilsuvá þeirra sem hana byggja. Mikil og óábyrg notkun sýklalyfja er sögð ein helsta skýringin á útbreiðslu ónæmisins.

Tvö heilsugæslusvæði á Íslandi hafa í samvinnu við sóttvarnalækni staðið að átaki um bætta notkun sýklalyfja. Annað þeirra eru Egilsstaðir en fyrir þremur árum hófst verkefni undir yfirskriftinni „Börn, sýkingar og sýklalyf."

Markhópur fræðslunnar eru foreldrar ungra barna. „Við færðum þau um að flest börn fá ansi mikið af sýkingum en flestar þeirra eru afar saklausar og þarf ekki að meðhöndla með lyfjum," segir Pétur.

Ónæmið vaxandi vandamál í Evrópu

Af hálfu Evrópusamtakanna er lögð áhersla á að ábyrg lyfjanotkun sé á ábyrgð allra, bæði læknis og neytenda. Undanfarin fjögur ár hefur ónæmið farið vaxandi í Evrópu en samkvæmt upplýsingum frá Landlækni hefur það staðið í stað hérlendis frá 2011.

„Ónæmi gegn sýklalyfjum er enn mjög alvarleg ógn við heilsu Evrópubúa því hún leiðir til aukins kostnaðar við heilbrigðiskerfið, lengri dvalar á sjúkrahúsi, þess að meðferðir misheppnast og stundum dauða," segir í fréttatilkynningu evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Pétur segir að sýklalyf séu gefin til að drepa bakteríur en mikil notkun þeirra bjóði heim þeirri hættu að sýklarnir þrói með sér ónæmi. Þá verði til bakteríur sem lifi af lyfjagjöfina sem geti orðið varasamar, sérstaklegar þær sem verði fjölónæmar sem eru þær bakteríur sem þróað hafa ónæmi gegn mörgum lyfjum.

Hann segir að algengasta dæmið um ónæmar bakteríur hérlendis séu pneumokokka sem séu algengir í öndunarfærum barna. Fleiri dæmi séu þó til. „Vandamálið er orðið til hér á landi en það er mun stærra sunnar í Evrópu við Miðjarðarhafið."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.