Vildu þrjár milljónir í bætur frá bílasölu en þurfa að borga tæpa milljón í málskostnað

heradsdomur austurlands hamar 0010 webHéraðsdómur Austurlands sýknaði nýverið Bílasölu Austurlands af kröfum Plútó ehf. um endurgreiðslur og skaðabætur upp á rúmar þrjár milljónir króna alls vegna rangra upplýsinga um ástand bifreiðar sem salan flutti inn að beiðni fyrirtækisins. Plútó var hins vegar gert að greiða bílasölunni og öðrum aðilum sem stefnt var um 900.000 krónur í málskostnað.

Það var í fyrravor sem Bílasalan hafði milligöngu um að finna notaða fólksflutningabifreið í Þýskalandi og flytja hana inn fyrir Plútó ehf. en kaupverðið var um fjórar milljónir króna með virðisaukaskatti.

Af hálfu forsvarsmanna Plútó ehf. var því haldið fram að bílasalan hefði fengið vörugjöld af bifreiðinni endurgreidd og ekki látið fyrritækið njóta þess. Þau voru í raun felld niður, eins og venjan er um fólksflutningabíla.

Dómurinn taldi að forsvarsmönnum Plútó hefði átt að vera fullkunnugt um þennan feril. Var bílasalan því sýknuð af þeim hluta stefnunnar upp á 670 þúsund króna endurgreiðslu.

Plútó fór einnig fram á 2,8 milljónir í skaðabætur fyrir ástand bifreiðarinnar og tafir á afhendingu hennar. Bent var á að ökurita hefði vantað en henni fylgt riti sem átti að hafa verið gripinn ofan úr hillu á bílasölunni í Þýskalandi.

Við ísetningu ökuritans hérlendis kom hins vegar í ljós að ökuritinn hafði áður verið í bifreiðinni og sýndu tvöfalt hærri kílómetratölu en gefin hafði verið upp við viðskiptin. Bar bílasalan því við að byggt hefði verið á upplýsingum frá þýsku bílasölunni sem upphaflega seldi bílinn.

Í dóminum er gagnrýnt að engin rannsókn hafi farið fram á bifreiðinni sjálfri og ekki kvaddur til matsmaður heldur aðeins lagður fram ökuritinn og gögn úr honum. Sérfræðingur sem sá um ísetningu ökuritans bar fyrir dómi að ekki væri útilokað að ökuritinn hefði verið í annarri bifreið frá árinu 2011 og þar til hann var settur í árið 2012.

Staðhæfing stefnanda um að sölumaður bílasölunnar hefði tekið ökuritann úr bílnum taldist því ósönnuð. Ennfremur taldist það ósannað að bifreiðin væru meira ekin en þýska bílasalan gaf upp.

Þá var farið fram á skaðabætur vegna þess að laga þurfti hjólastillingu og gera við miðstöð. Ósannað þótti að þessir hlutir hefðu verið ólagi þegar bíllinn var afhentur í byrjun júlí í fyrra. Dómurinn taldi heldur ekki sýn fram á að stefndi hefði ábyrgt ástand bifreiðarinnar við viðskiptin.

Plútó ehf. fór fram á skaðabætur út af því að dregist hefði að afhenda bílinn. Í dóminum er bent á að ekki hafi verið samið um neinn afhendingardag og teljist bílasalan einnig sýkn af þeirri kröfu.

Plútó stefndi bæði Bílasölunni og forsvarsmanni hennar en þeim hluta kærunnar var vísað frá vegna aðildarskorts. Sömu sögu var að segja um stefnu á hendur réttargæsluaðila bílasölunnar, VÍS.

Plútó var hins vegar dæmt til að greiða tæpar 900.000 krónur í málskostnað.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.