Riða greinist í Berufirði
Riðuafbrigðið Nor98 hefur greinst í kind á bænum Krossi í Berufirði samkvæmt heimildum Austurfréttar. Afbrigðið finnst fyrst og fremst í eldri kindum. Matvælastofnun leggur ekki til slátrun á bænum.
Þetta riðuafbrigði finnst fyrst og fremst í eldri kindum fjögurra vetra og eldri. Það fannst á Merki á Jökuldal í fyrra og var þá aðeins eldri kindum fargað en ekki bústofninum öllum, eins og venjan hefur verið með búfjársjúkdóma sem teljast jafn alvarlegir og riða.
Matvælastofnun leggur ekki til að fé verði slátrað á bænum en ábúendur á Krossi voru búnir að ákveða að fækka fé áður en veikin greindist.
Bærinn er í riðuhólfi og mega bændur ekki flytja gripi á milli hjarða. Búið er að taka ríflega sextíu sýni úr kindum á bænum og áfram verður fylgst með stofninum, að því er Austurfrétt kemst næst.
Þetta er í fimmta skipti sem Nor98 riða greinist í kind á Íslandi. Veikin er frábrugðin venjulegri sauðfjárriðu að því leiti að hún virðist ekki smitast á milli einstaklinga við náttúrulegar aðstæður.