Haukur Óskarsson: Olíuvinnsla gæti hafist eftir áratug

haukur oskarson mannvitFinnist olía í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu gæti olíuvinnsla þar hafist eftir tíu ár. Margvísleg atvinnutækifæri geta falist í þjónustu við leit og vinnslu séu menn undir það búnir. Viturlegast er þó fyrst í stað að nýta þá innviði sem til staðar eru.

Þetta kom fram í máli Hauks Óskarssonar frá verkfræðistofunni Mannvit í erindi hans á atvinnumálaráðstefnunni Auðlindin Austurland sem haldin var fyrir skemmstu. hann talaði þar um möguleika í þjónustu við olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu en jarðlög þar þykja svipa til jarðlaga við Noreg þar sem gjöfular olíulindir hafa fundist.

Haukur sýndi dæmi um fimm ferli olíuvinnslu og sagði að Íslendingar væru rétt að komast af stað með það fyrsta sem sé að safna bergsýnum og gefa út leyfi en það taki 3-4 ár. Síðan taki við leitin sjálf sem taki 7-10 ár.

Ef olía finnst þarf að rannsaka hvort hún sé nógu mikil til að það borgi sig að vinna hana og síðan undirbúa vinnsluna. Það geti tekið 3-6 ár. Fjórða og fimmta stigið eru annars vegar vinnslutímabilið og hins vegar frágangur þegar olíulindin hefur verið tæmd.

Olíuiðnaðurinn þarf margþætta þjónustu, meðal annars útgerð. „Ef það er eitthvað sem við Íslendingar kunnum þá er það að gera út. Íslendingar eru góðir í að gera út," sagði Haukur sem hvatti menn til að gera út þjónustuskip fyrir leitina.

Hann sagði menn þurfa að miða áætlanir sínar við að byrja að veita þjónustu fyrir leitina á næstu tveimur árum og að vinnsluborun geti hafist á árunum 2020-2023.

Hann segir mikla fjármuni í olíuiðnaðinum og virðisaukningu í framleiðslukeðjunni mikla. Fjárfestingar í kringum rannsóknir og undirbúning geti numið 50 milljörðum á ári sem geti þrefaldast við vinnslu.

Haukur hvatti menn til að læra af reynslu nágrannaríkja og benti þar sérstaklega til fordæmis Norðmanna. Óþarfi sé að ráðast strax í uppbyggingu mannvirkja, miklu nær sé að nýta þau sem þegar eru til staðar.

„Skilgreinum Ísland sem tækifæri og skilgreinum hverju af kökunni við viljum ná til Íslands. Ef við erum ekki undirbúin þá náum við ekki þessu tækifæri."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.