Skjólgóðir Austfirðir bjóða upp á sóknarfæri í fiskeldi
Skjólgóðir firðir á Austurlandi geta hentað vel í fiskeldi. Finna þarf leiði til að koma fiskinum sem hraðast á erlenda markaði þannig hann haldist ferskur.Þetta kom fram í máli Valdimars Inga Gunnarssonar, sjávarútvegsfræðings, á ráðstefnunni Auðlindin Austurland fyrir skemmstu.
Í dag eru alin um 8 þúsund tonn á ári af fiski hérlendis en spáð er að aukning verði um 5000 tonn strax á næsta ári. Útflutningsverðmætið í fyrra nam 4,9 milljörðum króna. „Ef áform í samræmi við leyfisumsóknir ná fram að ganga áætlar Landssamband fiskeldisstöðva að framleiðslan fari upp í 40.000 til 50.000 tonn fyrir árið 2030.“
Framleiðsla í fiskeldi hefur aukist um 60 milljónir tonna á heimsvísu undanfarin 15-20 ár. Alls eru framleidd rúm 60 milljón tonna af fiskmeti, þar af um helmingur þeirra í Kína.
Í dag eru til staðar rekstrarleyfi fyrir 18.000 tonna fiskeldi á Austfjörðum í Mjóafirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Berufirði og í Öræfum. Að auki er ræktuð um 600 tonn af kræklingi í Stöðvarfirði, Mjóafirði og Seyðisfirði.
„Auðlindin eru skjólgóðir firðir á Austfjörðum,“ sagði Valdimar. Hækkandi hitastig sjávar þýðir bæði að ræktun verður hagstæðari á nyrðri slóðum og óhagstæðari á þeim syðri. Slík hefur þróunin til dæmis orðið í Noregi.
Hann segir að rannsaka þurfi umhverfið til að geta nýtt svæðið betur þannig að dregið verði úr líkum á tjóni. Meðal ógnvaldanna séu brennimarglyttur sem valdið hafi talsverðu tjóni. Erlendis hafi mönnum tekist að hafa stjórn á þeim þannig að þar séu fordæmi til að læra af.
Eins þurfi að koma á strandsvæðaskipulagi til að koma á skynsamlegri nýtingu Austfjarða.
Helstu ókostirnir við fiskeldi á Austfjörðum er fjarlægð frá mörkuðum. Viku tekur að koma fiskinum á markað, annað hvort í Evrópu eða Bandaríkjunum. Til að mæta þessu þurfa skipaferðir frá svæðinu að vera tíðari og bæta kæliferlið.