Tuttugu stiga hiti á Dalatanga í gær: Aðeins tvisvar gerst áður í nóvember
Rúmlega tuttugu stiga hiti mældist á Dalatanga um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Hitinn hefur aðeins tvisvar áður farið yfir tuttugu stig í nóvember á Íslandi síðan mælingar hófust. Mikil hlýindi voru víða um fjórðunginn og hækkaði hitastigið víða snögglega eftir hádegið í gær.20,2 stiga hiti mældist á Dalatanga rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi. Hitinn hækkaði snögglega þar, úr 7 gráðum í 20 á um það bil hálftíma.
Á bloggsíðu Trausta Jónssonar, veðurfræðings, segir að aldrei hafi jafn hár hiti mælst jafnt seint á landinu. Aðeins hefur tvisvar áður mælst yfir 20 stiga hiti í nóvembermánuði, árin 1999 og 2001.
Hitamet mánaðarins er frá 1999 og mældist á 23,2 stig á Dalatanga. Dægurmetið frá í gær var áður 14,5 stig frá Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði árið 1994.
Á Reyðarfirði fór hitastigið úr 5 gráðum í 15 á nokkrum mínútum um klukkan þrjú í gær og hélst nokkurn vegin þannig fram yfir kvöldmat.
Átján stiga hiti mældist í Neskaupstað í gær en hitaaukningin var hraðari þar. Á Eskifirði var um 18 stiga hiti á milli klukkan fjögur og fimm.
Mikið hvassvirði fylgdi hlýindunum og átti reyndar sinn þátt í þeim.
Útlit er fyrir að hlýindin séu búin í bili. Veðurstofan spáir suðvestan og vestanáttum í dag, 18-25 m/s og kólnandi veðri. Í kvöld og á morgun dregur úr vindi og það kólnar. Spáð er slyddu eða snjókomu seinni partinn á morgun.