Hæstiréttur hafnaði lögbanni SSA á ferðir Sternu

sterna ruta webHæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms Austurlands frá því í vor sem hafnaði staðfestingu á lögbanni sýslumannsins á Höfn á akstur Sternu á milli Hafnar og Egilsstaða. Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) höfðaði málið þar sem það taldi brotið á einkaleyfi félagsins til að skipuleggja almenningssamgöngur á svæðinu.

Það var í árslok 2011 sem Vegagerðin framseldi einkaleyfi sitt til að skipuleggja almenningssamgöngur á Austurlandi til SSA en því fylgdi einnig 45 milljóna króna stuðningur.

Vorið 2012 auglýsti Sterna hins vegar sumarferðir á milli Hafnar og Egilsstaða með sex viðkomustöðum á milli þar sem farþegar gátu hoppað inn og út. SSA taldi aksturinn brjóta gegn einkaleyfinu og að loknum bréfaskrifum til Sternu var fengið lögbann á aksturinn í júlí 2012.

Hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur féllust á að staðfesta lögbannið. Farþegar Sternu keyptu svokallaða hringmiða og í dómi Hæstaréttar segir að þeir hafi aðeins getað nýtt þá í ferðir umhverfis landið en ekki til að kaupa sér far milli einstakra viðkomustaða. Þannig hafi ferðirnar ekki verið öllum opnar og brjóti því ekki gegn einkaleyfinu.

Í dómi Hæstaréttar er hins vegar bent á að kynning Sternu á ferðunum á vef félagsins vorið 2012 hafi ekki verið í samræmi við lýsingar forsvarsmanna fyrirtækisins fyrir dómi enda var henni breytt.

Fimm hæstaréttardómarar kváðu upp dóminn. Hvor málsaðili ber sinn hluta málskostnaðar í héraðsdómi en SSA var dæmt til að greiða hálfa milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.