Starfsmannaþorpið fær að standa fram á næsta haust
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. des 2013 12:35 • Uppfært 03. des 2013 12:35
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur veitt leyfi til að vinnubúðirnar sem reistar voru fyrir verkamennina sem byggðu álverið í Reyðarfirði fái að standa fram til 30. september á næsta ári. Upphaflega áttu búðirnar að vera farnar árið 2008.
Það var Alcoa Fjarðaál sem óskaði eftir enn einni framlengingunni á stöðuleyfinu þótt búðirnar séu komnar í eigu Stracta Construction.
Í bréfi Alcoa kemur meðal annar fram að þorpið hafi staðið lengur en áætlað var þar sem hægt hafi á framkvæmdum fyrirtækisins eftir hrun og erfitt hafi að koma þorpinu í not annars staðar.
Það var í byrjun nóvember sem Stracta lagði fram áætlanir um hvernig húsin sem eftir standa verða fjarlægð og gengið frá lóðunum. Í bréfinu, sem undirritað er af Magnúsi Ásmundssyni forstjóra Alcoa á Íslandi, segir að fyrirtækið hafi fulla trú á að Stracta standi við sínar skuldbindingar enda verði þeim fylgt stíft eftir.
Húseiningarnar eru í dag auglýstar á vef Byggingafélagsins Sandfells ehf. sem tengist Stracta. Þar segir að einingarnar séu framleiddar eftir ströngum gæðastöðlum fyrir íslenskar aðstæður og ástand húsanna sé „mjög gott, að utan sem innan."