Dæmdur fyrir að stofna lífi og heilsu vegfarenda í hættu með glannaakstri

heradsdomur austurlands hamar 0010 webHéraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stofnað lífi og heilsu vegfarenda í hættu á ófyrirleitinn hátt með glannaakstri. Viðkomandi ók ítrekað á rangan vegarhelming á miklum hraða á flótta undan lögreglu á Fagradal í fyrrahaust.

Eltingaleikurinn hófst niðri á Reyðarfirði og endaði við Neðstubrú á Fagradal. Ökumaðurinn var ofurölvi og að auki undir áhrifum kannabisefna, ók mest á 136 hraða og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

Hann játaði brot sitt en dró í efa að hann hefði stofnað lífi og heilsu vegfarenda í hættu eins og lýst er í hegningarlögum.

Eftirför lögreglu átti sér stað að næturlagi í september í fyrra í mikilli rigningu. Hún stóð í sjö mínútur og var tekin upp með búnaði í lögreglubíl.

Á meðan henni stóð komu þrír bílar úr gagnstæðri átt í beygjunum af Fagradal niður í Reyðarfjörð. Bílstjórar þeirra báru allir fyrir dómi að þeir hefðu hægt á sér og hægt út í kant þegar þeir sáu forgangsljós lögreglunnar.

Á upptökunum sást að bíll ákærða var að mestu á öfugum vegarhelmingi þar til rétt áður en hann mætti fyrsta bílnum á 110-117 km hraða. Hann ók einnig ítrekað yfir miðlínu til að koma í veg fyrir að lögreglan kæmist fram úr.

Með vísan til játningar og rannsóknargagna taldist dómurinn sannað að hann hefði stofnað lífi annarra vegfarenda í hættu. Hann var því dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem skilorðsbundið er í tvö ár, 160 þúsund króna sekt fyrir ölvunarakstur, greiðslu alls sakarkostnaðar upp á rúmar 310.000 krónur og sviptingar ökuréttar í tvö ár.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.