-25°: Fimbulkulda spáð um helgina
Veðurfræðingar hafa undanfarna daga spáð um tuttugu stiga frosti um helgina. Frosthörkurnar færast yfir seinni part fimmtudags og standa fram á sunnudag.Kalt loft er væntanlegt úr norðri en spáð er norðvestan fram eftir morgundeginum sem snýst í suðaustan á föstudag og síðan norðaustan og austan á laugardag. Nokkur vindur fylgir, um 8-15 m/s.
Útlit er fyrir að mesti kuldinn verði í innsveitum en þar sýna kort Veðurstofunnar allt að 25 stiga frost á föstudag. Við ströndina verður frostið væntanlega 10-20 stig.
Útlit er fyrir miklar hitasveiflur en aðeins er vika síðan hiti á Austurlandi mældist 10-20 stig. Veðurfræðingar spá því að frostlaust verði orðið á sunnudag.
Eigendur sumarhúsa hafa til að mynda verið varaðir við hættunni af því að vatn frjósi í lögnum og að vatnstjón geti orðið eftir helgina. Slíkt er alvarlegt, sérstaklega því skaðinn uppgötvast oft ekki fyrr en dögum eða vikum eftir lekann.