Ljós á sendi RÚV á Eiðum trufla íbúa: Búnaðurinn þolir ekki íslenskt veðurfar

eidar langbylgjumastur webForstöðumenn Ríkisútvarps eru enn að leita leiða til að lagfæra ljósabúnað í langbylgjumastrinu á Eiðum. Búnaðurinn hefur verið í ólagi árum saman og blikk hans veldur íbúum á Eiðum miklum óþægindum.

Íbúar á Eiðum skrifuðu undir áskorun til RÚV um að laga ljósin í vor og sendu bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs afrit. Bæjarstjórnin tók undir kvartanir þeirra og hefur síðan fylgt málinu eftir gagnvart RÚV.

Gerðar voru kröfur til stofnunarinnar um að hún léti gera „strax" við búnaðinn og minnt á ákvæði í byggingareglugerð þar sem segir að lýsing á lóðum eigi hvorki að valda óþarfa ljósmengun né nágrönnum óþægindum utan lóðar.

Jafnframt skoraði bæjarstjórnin á Pál Magnússon, útvarpsstjóra, að koma austur til fundar um mastrið og önnur málefni RÚV.

Hann hefur ekki þekkst boðið en forstöðumaður tæknisviðs RÚV sendi bæjarstjórn bréf til að upplýsa um stöðu mála. Þar kemur fram að verið sé að leita leiða í samráði við ISAVIA, sem gerði kröfur um ljósabúnaðinn á sínum tíma til að tryggja flugöryggi, til að uppfylla þær kröfur sem gerðar hafi verið.

Núverandi ljós hafi reynst of óáreiðanleg miðað við íslenskt veðurfar og engin áreiðanleg ljós virðist til á markaði. Skoðað sé hvernig breyta megi ljósunum þannig þau þoli veðrið, ónáði ekki nágranna en tryggi samt fullt flugöryggi.

Í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs er minnt á þá kröfu að búnaðurinn verði tafarlaust lagaður eða honum skipt út þar sem ástand hans hafi verið „óásættanlegt um áraraðir."

Jafnframt er beiðnin um að útvarpsstjóri komu austur til fundar ítrekuð.

Mynd: Þórhallur Pálsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.