Skip to main content

PISA: Hefur austfirskum nemendum hefur farið aftur um heilt skólaár?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. des 2013 16:41Uppfært 05. des 2013 19:21

move week sabina fellaskoliÞeir nemendur sem luku grunnskólanámi árið 2012 eru heilu skólaári á eftir þeim sem útskrifuðust tíu árum fyrr í lesskilningi og stærðfræðilæsi, ef marka má niðurstöður PISA-könnunar. Austfirðingum virðist fara mest aftur ef landshlutarnir eru bornir saman.


Austfirskir nemendur tapa 60 PISA stigum í stærðfræðilæsi frá árinu 2003 til 2012, fara úr 523 stigum í 463 en það er mesta tap eins landshluta. Séu landshlutarnir bornir saman koma Austfirðingar næst verst út á eftir Suðurnesjum.

Í niðurstöðuskýrslunni er bent á að læsi á stærðfræði hafi ekki verið ýkja frábrugðið árið 2003. Síðan hafi átt sér stað „mjög neikvæð þróun" meðal annars á Austurlandi.

Austfirðingar falla einnig mest í lesskilningi, úr 521 stigi í 458 frá árinu 2000 til 2012 eða um 63 stig og eru næst lægstir á landsvísu.

Miðað við þetta má segja að Austfirðingum hafi farið aftur um eitt til eitt og hálft skólaár á þessu sviði, það er að lesskilningur nemenda sem nú útskrifist úr 10. bekk sé svipað og úr níunda bekk árið 2000.

Náttúrufræðilæsi var einnig skoðað í könnuninni en það fellur á Austurlandi úr 488 stigum í 452 frá árinu 2006 til 2012. Fallið er 36 stig, sambærilegt og í flestum öðrum landshlutum þótt heildarskorið sé það næst lægsta í samanburði landshlutanna.

Náttúrufræðilæsi þeirra sem útskrifast úr tíunda bekk í dag er því svipað og þeirra sem kláruðu níundabekk árið 2006. Skýrsluhöfundar segja þetta „gríðarlega neikvæða þróun á skömmum tíma."

Spurningunum í könnuninni er skipt í sex þrep sem taka við hvert af öðru í erfiðleika. Aðeins 6% austfirskra nemenda komast í efstu tvö þrepin í stærðfræði sem er einna slakasti árangurinn. Um þriðjungur nemenda kemst ekki lengra en í annað þrep.

Dreifing í hæfnisþrep í lesskilningi er svipuð og annarra landshluta. Náttúrufræðilæsið er einnig slakt, þar kemst þriðjungur ekki upp af öðru þrepi. Hins vegar eiga Austfirðingar 1% í efsta þrepinu en fimm landshlutar af níu ekkert.

Skýrsluhöfundar segja niðurstöðurnar sýna „svipaðar niðurstöður fyrir hlutfall mjög slakra nemenda á öllum þremur sviðum læsis. Suðurnes standa áberandi verst að vígi og þar á eftir Austurland."

PISA-könnunin er gerð í 65 löndum. Hér á landi var það Námsgagnastofnun sem sá um hana. Á landsvísu sýndi könnunin afturför sem nam hálfu skólaári frá því að byrjað var að gera kannanirnar.

Verulegur munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í öllum greinum og hefur afturförin orðið mest á landsbyggðinni þó svo höfuðborgarsvæðið hafi einnig látið undan síga.

Munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi og skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var.