Franski spítalinn verður miðstöð ferðaþjónustu á Fáskrúðsfirði - Myndir

franski spitali 20102013Uppbygginu franska spítalans á Fáskrúðsfirði miðar vel en gert er ráð fyrir að umbreytingu hans í hótel verði lokið í maí. Fleiri hús verða endurgerð og sýning sett upp um franska sjómenn á svæðinu sem á að verða miðstöð ferðaþjónustu á Fáskrúðsfirði.

Það var árið 2008 sem Minjavernd ákvað að endurbyggja spítalann og tveimur árum síðar var hann fluttur frá Hafnarnesi, þaðan sem hann hafði staðið frá árinu 1939, og út á Fáskrúðsfjörð en þar var hann reistur árið 1903. Upphaflega stóð til að endurbyggja hann úti á Hafnarnesi en það þótti ekki henta.

Spítalanum var fundinn staður við Hafnargötu neðan við gamla Læknishúsið sem Frakkar reistu árið 1907. Við hlið þess stendur kapella Frakka frá árinu 1898 en hana er einnig verið að endurbyggja.

Læknishúsið og spítalinn hafa verið tengd saman með göngum undir Hafnargötuna en þar er meðal annars gert ráð fyrir að setja upp margmiðlunarsýningu um franska sjómenn, en mannvirkin voru upphaflega byggð til að þjónusta þá. Áætlað er að Frakkar hafi veitt á svæðinu í um fjórar aldir.

Fosshótel hafa tekið hluta húsanna á leigu og hyggjast byggja upp þriggja stjörnu hótel með gistingu fyrir 60-70 húsum með möguleika á stækkun. Markmiðið er að búa til viðburðahótel þar sem ferðamenn vilji gista meira en bara eina nótt.

Giftingar hafa til dæmis verið vinsælar á slíkum hótelum og þá er hentugt að gamla kapellan sé við hliðina. Þá er gert ráð fyrir að leggja áherslu á sjávarrétti á matseðli. Hótelið á að vera opið frá maí og fram á haust en á fundum hér eystra hafa forsvarsmenn hótelkeðjunnar gefið út það markmið að það verði opið allt árið.

Neðan við spítalann hefur verið byggð bryggja sem hægt verður að sigla upp að.

Við enduruppbyggingu húsanna hefur verið lögð áhersla á að endurnýta byggingaefni eins og hægt er. Gamlar myndir hafa skipt miklu máli við leit að munum úr kirkjunum en út frá þeim hafa meðal annars fundist gömul líkneski sem voru í henni.

„Við reynum að ná yfirbragðinu eins sannfærandi og kostur er. Það gengur allt út á að halda gömlu yfirbragði og skapa gamlan anda," sagði Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, þegar hann leiddi gesti um svæðið fyrir skemmstu.

Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði orðnar klárar í maí á næsta ári og svæðið verði í kjölfarið að miðstöð ferðaþjónustu á Fáskrúðsfirði.

Franski spítalaklasinn Fáskrúðsfirðifranski spitali fask 09042013 0001 webfranski spitali fask 09042013 0008 webfranski spitali fask 09042013 0010 webfranski spitali fask 09042013 0012 webfranski spitali fask 09042013 0014 webfranski spitali fask 09042013 0017 web
franski spitali 20102013 2

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.