Hallormsstaðarskóli: Í raun verið að ákveða að loka skólanum?

hallormsstadarskoli mai13Settur skólastjóri Hallormsstaðarskóla segir að í raun sé verið að loka skólanum með áformum um að flytja elstu bekki skólans út í Egilsstaði frá og með næsta skólaári. Samþykkt hefur verið að draga verulega saman í rekstri skólans. Sveitarstjórnarmenn segja hann of dýran í rekstri miðað við nemendafjölda.

„Hversu frábært er það fyrir hin börnin ef unglingarnir fara?" spurði Elín Rán Björnsdóttir, settur skólastjóri Hallormsstaðarskóla, á opnum fundi í skólanum í gær þar sem framtíð hans var til umræðu.

Sveitarstjórnir Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps komust í síðustu viku að samkomulagi um að nemendum í hið minnsta tveimur elstu bekkjum skólans yrði fundinn staður í öðrum skólum á Fljótsdalshéraði frá og með næsta skólaári.

Í greinargerð starfshóps, sem skipaður var til að koma með tillögur um framtíð skólans, er gert ráð fyrir að spara megi allt að helming ætlaðs launakostnaðar, um 35 milljónir króna, í rekstri hans með þessari aðgerð.

Hvar eru þolmörkin?

Elín Rán gagnrýndi skýrsluna harðlega, sagði hana „ófaglega" og hlaðna „lofyrðum um stóra skóla á kostnað minni skóla." Hún sagði skýrsluna uppfulla af rangfærslum en fór þó ekki nánar út í athugasemdir sínar sem hún sagðist mundu fara ítarlega í á fundi skólanefndar.

Elín benti samt á að þótt skýrslan fjallaði að mestu um fjármál væri varla að finna „eina einustu tölu" í henni og að flestar forendur væru frá síðasta ári, sem hefði verið afar erfitt, en ekki tekið meðaltal nokkurra ára.

Harðasta gagnrýni Elínar beindist þó að því að ekki hefði verið hugað að því sem tæki við eftir að bekkirnir færu. Í raun sé verið að skera niður fjóra elstu bekkina því enginn nemandi sé á leið í sjöunda bekk og þeir sem færu í þann áttunda myndu að líkindum fara í Egilsstaði.

Útlit væri fyrir að aðeins tíu nemendur yrðu skráðir í skólann næsta haust og á fundinum kom fram að foreldrar hygðust ekki tvískipta systkinahópum. Jafnvel geti svo farið aðeins verði fjórir nemendur eftir. „Hver eru þolmörkin?" spurði Elín.

Leiðin er ekki farin með gleði

„Okkur langar virkilega að halda skólanum á Hallormsstað en kannski er mörkunum náð," svaraði Eyrún Arnardóttir, starfandi forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði.

„Skólinn er of dýr í dag miðað við nemendafjölda," sagði hún. Hún útskýrði að sveitastjórnirnar hefði sameinast um að fækka bekkjunum. Sú tillaga hefði þótt skást, enginn vildi loka skólanum. Hún kvaðst ánægð með að tillagan hefði verið samþykkt samhljóða inni í bæjarstjórninni. „Það eru skiptar skoðanir inni í bæjarstjórninni. Þar eru sumir sem vilja loka en mönnum fannst þetta greinilega skynsamleg leið."

„Auðvitað er alltaf erfitt að fara í svona aðgerðir en vandamál þessa skóla er íbúafækkun, barnafæð," sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs. Hann hafnaði alfarið ásökunum um að hann hefði nokkurn tíman sagt að hann vildi láta loka skólanum.

„Það hefur verið stefna okkar að reka fjóra skóla, þar af tvo í dreifbýli en hér hefur orðið forsendubrestur. Það hafa komið upp verulegar efasemdir um velferð barna í minni skólum og í fyrra var talað um að umhverfið hér væri alls ekki hollt fyrir börnin. Markmið okkar er að loka ekki dyrum."

Gunnþórunn Ingvarsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps, sagðist þeirrar skoðunar að íbúaþróun í sveitunum myndi snúast við og þá væri nauðsynlegt að eiga skólann uppi í erminni. Niðurskurðaleiðin væri þó „ekki farin með gleði. Við erum stundum spurð að því hvernig Fljótsdælingar geti borgað svona mikið með skólanum og svarið er að við eigum dýrmæt börn."

Ítrekað fram úr fjárhagsáætlunum

Í greinargerð starfshópsins kemur fram að 25 nemendur séu í Hallormsstaðarskóla, þar af tólf búsettir á Egilsstöðum. Hreinn kostnaður við skólann sé um 100 milljónir. Launakostnaður hafi verið áætlaður rúmar 70 milljónir í ár en stefni í að vera nær 80. Annar rekstrarkostnaður sé tæp 21 milljón. Þá bætist við fjörtíu milljónir í innri leigu.

„Aðhalds hefur verið krafist í skólanum á undanförnum árum (svo sem í öllum skólastofnunum sveitarfélagsins), en þrátt fyrir það hefur reksturinn farið fram úr fjárhagsáætlunum ár hvert. Umræða um það hefur verið í samfélaginu og oft neikvæð, sem getur hafa haft niðurdrepandi áhrif á skólann og skólasamfélagið."

Fram kemur að starfshópurinn hafi fundað með starfsmönnum í byrjun þessa skólaárs og það lýst þreytu og uppgjöf „vegna ástandsins." Meðal annars er minnst á hræðslu út af bræðiköstum ákveðins nemanda. Niðurstöður úr könnunum Skólavogarinnar hafi heldur ekki verið jákvæðar og vanlíðan og lítið sjálfstraust mælst hjá nemendum á Hallormsstað.

„Við erum skóli án aðgreiningar og það sem kom upp var vegna þess. Þegar skóli fer að snúast um að tryggja öryggi fólks fer faglegt starf niður á við," sagði Elín Rán og benti á að fjármunir hefðu farið í sérúrræði fyrir nemendur en ekki endurnýjun á búnaði. Hún bætti einnig á að niðurstöður kannana frá í haust sýndu jákvæða þróun á líðan nemenda.

Dýr miðað við aðra skóla á Fljótsdalshéraði

Starfshópurinn skilaði þremur tillögum: Að loka skólanum, að taka tvo elstu bekkina í burtu og gera skólann að deild undir Egilsstaðaskóla eða gera skólann aðeins að deild undir Egilsstaðaskóla. Fullyrt er að fyrsta tillagan feli í sér „verulega fjárhagslega hagræðinu" fyrir sveitarfélögin, sú næsta „talsverða" og svo þriðja „óverulega".

Aðeins er gefin til kynna ákveðinn hagnaður af tillögu tvö. Í niðurstöðum starfshópsins segir að ekki hafi verið farið í „þá miklu vinnu" sem fylgi því að reikna út nákvæman ávinning. Það sé „nánast ekki hægt" fyrr en ljóst sé hvernig nemenda- og starfsmannahóparnir skipist þegar skólahald hefjist.

Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði sem sæti átti í starfshópnum, útskýrði að það bæti munað um ákveðinn starfsmann og biðlaunarétt hans um hvort tölurnar yrðu réttar.

„Þau fjögur ár sem ég hef setið í fræðslunefnd hefur þessi skóli hefur alltaf verið dýr miðað við aðra skóla á Fljótsdalshéraði. Það er ekki eins og hér hafi allt verið eins og blómstrið eina. Skólastarfið og starfsandinn hér hafa verið niður á við sem meðal annars hefur orðið til þess að börn úr þessum skóla hafa farið út eftir."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.