Hallormsstaðarskóli: Nemendur slegnir eftir að hafa frétt af niðurskurði á undan foreldrum

hallormsstadaskoli fundur 08122013 0002 webNemendur Hallormsstaðarskóla voru slegnir þegar þeir komu í skólann á fimmtudagsmorgun. Í gegnum fréttir RÚV höfðu þeir kvöldið áður heyrt af því að til stæði að fækka bekkjum í skólanum og jafnvel sumir á undan foreldrum. Hraðinn við ákvarðanatökuna var meðal þess sem gagnrýnt var á fundi um næstu skref í hagræðingarferli í skólanum í gær.

Foreldrar barna í skólanum gagnrýndu vinnubrögð sveitarstjórna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps sem að skólanum standa, harðlega á fundinum, einkum hversu hratt ákvörðun um að fækka í skólanum frá og með næsta hausti var tekin.

Fram kom að sum barnanna hefðu heyrt fréttirnar og haldið að þau væru að fara í Egilsstaðaskóla strax daginn eftir. Starfsmenn og nemendur voru sagðist hafa verið gráti nær á fimmtudagsmorgun og kalla hefði þurft alla á sal til samráðsfundar.

Foreldrar gagnrýndu samráðs –og upplýsingaleysi. Börn þeirra hefðu jafnvel heyrt af ákvörðuninni að undan þeim. „Þau eru alveg jafn stressuð og við. Þetta er þeirra skólaganga. Þau vita alveg hvað við erum að gera hér," sagði Michelle Lynn Mielnik, formaður foreldrafélags skólans.

Hissa á hraðanum

„Ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta færi svona beint út," sagði Eyrún Arnardóttir, starfandi forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði. „Ég hélt við fengjum 1-2 daga," sagði hún. Rétt er að halda því til haga að bæjarstjórnarfundir eru sendir út beint á vef sveitarfélagsins.

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, sagðist hafa gert sér grein fyrir hraðanum. Hins vegar virtist hann hissa á viðbrögðum samfélagsins.

„Ég gerði mér grein fyrir að þetta færi strax út en ekki að þetta kæmi á óvart í samfélaginu. Fólk þarf ekki að láta þetta koma sér á óvart. Starfshópurinn er búinn að vera að störfum mánuðum saman," sagði hann.

Takmarkaður tími starfshóps?

Eftir viðvarandi fækkun nemanda, ítrekuð útgjöld umfram áætlanir og fleiri erfiðleika í starfi skólans var í maí komið á starfshópi, skipuðum tveimur bæjarfulltrúum Fljótsdalshéraðs og einum sveitarstjórnarmanni úr Fljótsdal, til að greina „stöðu, framtíðarhorfur og valkosti varðandi skólastarf á Hallormsstað."

Þremur vikum síðar skilaði hópurinn af sér tillögu um að nemendum í tveimur elstu bekkjunum yrði ekið í Egilsstaði og skólinn gerður að deild undir Egilsstaðaskóla strax um haustið. Of skammur tími þótti til stefnu en hópnum var falið að starfa áfram og skila tillögum sínum fyrir lok október.

Tillögurnar bárust hins vegar ekki fyrr en rétt fyrir lok nóvember og á fundinum í gær sagði Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði sem sæti átti í hópnum að upplýsingar í greinargerðinni væru að hluta til ófullkomnar því hópurinn hefði haft „takmarkaðan tíma til að vinna."

Sveitastjórnarmenn fengu tillögurnar í hendurnar síðastliðinn mánudag. Sama dag hittust fulltrúar sveitarstjórnanna tveggja á fundi á Hallormsstað þar sem ákveðið var að vinna eftir tillögu áþekkri þeirri sem lögð var fram í júní. Starfshópurinn skilaði af sér tveimur öðrum tillögum, annars vegar að loka skólanum, hins vegar að starfið yrði óbreytt en hann gerður að deild undir Egilsstaðaskóla.

Eftir fundinn var haldinn fundur með starfsmönnum þar sem tilkynnt var eftir hvaða leið sveitarfélögin ætluðu að vinna eftir. Tveimur dögum síðar var hún formlega staðfest á bæjarstjórnarfundi á Fljótsdalshéraði og á fimmtudegi í Fljótsdalshreppi.

Enginn tími til að gera athugasemdir við tillögurnar

Bæði foreldrar og starfsfólk gagnrýndu þennan mikla hraða málsins. „Hvorki starfsfólki né foreldrum var gefinn tími til að tjá sig um tillögurnar áður en ákvörðun var tekin í sveitarstjórn," sagði Gissur Árnason, kennari.

Fulltrúar sveitastjórnanna sögðu að nauðsynlegt hefði verið að taka ákvörðunina fyrir áramót þannig hægt væri að byrja að vinna eftir henni og undirbúa breytinguna næsta haust.

„Kannski vanmátum við hvernig fréttaflutningurinn yrði. Við fórum lengra á fundi sveitarstjórnanna en ég bjóst við," sagði Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti Fljótsdalshrepps. Hún bætti við að hún saknaði tillögu um hvernig skólinn yrði efldur eftir hagræðinguna. „Ég hélt hún kæmi líka."

„Þetta eru allt varnartillögur. Skólinn verður líka að fá svigrúm til að sækja fram. Annars blæðir honum bara út," sagði Skúli Björn Gunnarsson, foreldri.

Hann benti á að í greinargerð starfshópsins vantaði mat á frekari afleiðingum niðurskurðarins á Hallormsstað, svo sem áhrifum á aðra skóla á Fljótsdalshéraði og lækkun fasteignaverðs.

Raunverulagt val á milli skóla?

Fulltrúar Héraðslista og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs lögðu í haust fram tillögu um fenginn yrði utanaðkomandi sérfræðingur til að gera „faglega og fjárhagslega heildarúttekt á fræðslustofnunum" sveitarfélagsins.

Fulltrúar meirihluta Á-lista og Framsóknarflokks í meirihluta felldu tillöguna strax í fræðslunefnd á þeim forsendum að starfshópar væru að skila af sér niðurstöðum, annars vegar um Hallormsstað en hins vegar um sérfræðiþjónustu skóla. Ekki væri heldur gert ráð fyrir kostnaði við úttektina í fjárhagsáætlun.

Enginn fulltrúi minnihlutans var sjáanlegur á fundinum í gær en hins vegar Eyrún, Gunnar og Gunnhildur frá meirihlutanum auk fræðslustjóra og þriggja aðalmanna úr sveitarstjórn Fljótsdalshrepps.

Foreldrar gagnrýndu einnig að lítið væri gert til að efla skólann þótt stefna Fljótsdalshéraðs hafi verið að nemendur hafi val á milli skóla virtist lítið gert til að styðja við þá sem vildu velja sér skóla.

Þeir sögðust hafa rætt við aðra foreldra sem hefðu verið áhugasamir og sagt börn sín vilja fara í Hallormsstaðarskóla. Þeir væru hins vegar ekki tilbúnir til að senda þau þangað á meðan framtíð skólans væri í lausu lofti.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.