Fyrirvaralaus hækkun á gjaldskrám Strætó: Kynning misfórst
Verð á fari á milli Egilsstaða og Akureyrar með Strætó hækkaði um 900 krónur í síðustu viku. Hækkuninni var komið á fyrirvaralaust. Talsmaður fyrirtækisins segir kynningu hafa misfarist og á því verði gerð bót.„Kynning á þessu misfórst og þykir okkur það miður. Við munum læra af því fyrir framtíðina og bæta okkur í þeim efnum," segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs. sem sér um akstur á leiðinni.
Breytingin tók gildi 1. desember síðastliðinn. Bætt var við þremur gjaldsvæðum á milli Akureyrar og Egilsstaða og kostar leiðin nú 18 gjaldsvæði. Við það hækkaði gjaldið um einar 900 krónur en samkvæmt gjaldskrá á vef Strætó kostar stök ferð á milli Akureyrar og Egilsstaða 6300 krónur.
Það eru landshlutasamtök sveitarfélaganna sem standa fyrir almenningssamgöngunum en Eyþing skipulagði aksturinn á milli Egilsstaða og Akureyrar.
Kolbeinn segir það hafa verið ákvörðun landshlutasamtakanna að leiðrétta gjaldskrá leiðanna. „Leiðirnar voru ekki rétt metnar í upphafi og gjaldið var óeðlilega ódýrt miðað við ekna kílómetra."