Skip to main content

117 jákvæð sýni í gær

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2022 17:53Uppfært 21. feb 2022 18:12

Ríflega 300 manns eru nú í einangrun á Austurlandi vegna Covid-19 smita. Um helmingur þeirra sem fóru í sýnatöku í gær reyndust smitaðir.


Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Í gær voru tekin 240 sýni, flest vegna einkenna. Af þeim reyndust 117 jákvæð eða tæpur helmingur.

Samkvæmt Covid-korti RÚV voru 77 smitanna á Egilsstöðum, 13 á Seyðisfirði og 11 í Neskaupstað. Þungi faraldursins eystra hefur því færst frá fjörðunum upp í Hérað.

Í dag voru tekin 310 sýni í fjórðungnum. Reiknað er með að niðurstöður úr hluta þeirra liggi fyrir í kvöld en ekki fyrr en á morgun úr öðrum vegna álags í greiningu.

Í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar segir að ljóst sé af þessum háu tölum, hvort sem litið er á hlutfall jákvæðra sýna eða fjölda þeirra sem fara í sýnatöku, að smit dreifast hratt um svæðið.

Aðgerðastjórnin hvetur því íbúa til að gæta að sér og halda sig til hlés ef mögulegt er. Þeir sem finni fyrir einkennum sleppi því að mæta í vinnu eða skóla heldur fari í sýnatöku og hafi hægt um sig þar til niðurstaða liggur fyrir.

„Aðgerðastjórn bendir á að talsverð hálka er nú á COVID veginum og skyggni lélegt. Mikilvægt er því að fara með ýtrustu gætni um þann krókótta veg þar til léttir til og birtir að nýju.“