Skip to main content
Starf fimleikadeildar Hattar löngum verið blómlegt en það aðeins einn angi af viðamiklu starfi félagsins. Mynd Höttur

Tólf milljóna króna styrkur Múlaþings gerir Hetti kleift að ráða sér framkvæmdastjóra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. nóv 2025 16:07Uppfært 19. nóv 2025 17:59

Í vikunni samþykkti fjölskylduráð Múlaþings að veita íþróttafélaginu Hetti sérstakan styrk upp á tólf milljónir króna til að mæta kostnaði við að ráðinn verði sérstakur framkvæmdastjóri félagsins. Slík ráðning mun minnka til muna mikið og sívaxandi álag á fjölda sjálfboðaliða félagsins.

Samhliða mikilvægum styrknum samþykkti fjölskylduráðið þá tillögu íþróttafélagsins að endurskoða samninga sveitarfélagsins við öll íþróttafélög Múlaþings með það að markmiði að auka gagnsæi, skýra verklag og halda áfram að efla þau félögin. Nú sem fyrr gegna þau ekki aðeins mikilvægu íþróttalegu hlutverki heldur og er það starf allt afar mikilvægt í forvarnarlegu tilliti.

Jón Halldór Harðarson, formaður Hattar, fagnar þessum áfanga enda geri það íþróttafélaginu kleift að móta sér skýra stefnu en einnig að létta álagi á alla sjálfboðaliða. Félagið einmitt fengið sér til leiðsagnar um stefnumótun fyrrverandi framkvæmdastjóra Íþróttabandalags Akraness, Guðmundu Ólafsdóttur, sem vel þekkir til slíkra mála bæði á Akranesi og Hornafirði.

„Við höfum verið að horfa til staða eins og Akraness þar sem gerður var þjónustusamningur milli íþróttafélagsins og Akraneskaupstaðar sem er leið sem við viljum fara í góðri samvinnu við sveitarfélagið. Þetta snýst allt um hvað við getum gert meira og betur og allt er þetta í þágu farsældar barna sem snertir auðvitað íþróttastarfsemi líka. Þetta er stór áfangi því ef maður fer hringinn kringum landið þá er vonlaust að finna íþróttafélag með sambærileg umsvif og Höttur sem ekki er með fastan starfsmann eða starfsmenn á sínum snærum. Okkur styrkur hingað til hefur verið að við erum mjög félagslega sterk en álagið á sjálfboðaliðana okkar hefur verið mikið og það þarf að fá starfsmann til að vinna með og auðvelda hlutina. Með þessum styrk er það að raungerast.“