Á að færa Nesgötuna? Hart deilt um byggingu leikskóla í Neskaupstað

neseyri leikskolalod khHart hefur verið deilt um skipulag í tengslum við byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað síðustu mánuði. Skólinn á að vera á Neseyri og greinir menn á um hvort færa eigi Nesgötu niður fyrir skólann. Sá gjörningur eykur kostnað, gæti tafið framkvæmdir og takmarkað stækkun skólans.
Núverandi hugmyndir gera ráð fyrir sex deilda leikskóla á Neseyri og gatan liggi á núverandi stað ofan við skólann. Það þýðir að hún sker í sundur svæði á milli leikskólans og grunnskólans, sem er hinum megin við götuna.

Aðrar hugmyndir gera ráð fyrir að Nesgatan verðu flutt suður fyrri leikskólann. Þannig væri hægt að samnýta leiksvæði og starfsmenn og skapa heildstætt skólasvæði án umferðargötu. Gallinn er að það vegastæði takmarkar stækkunarmöguleika leikskólans.

Stærsti munurinn liggur í kostnaðinum. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 559 milljónir króna verði Nesgatan áfram á sínum stað en 651-674 milljónir verði hún flutt til suðurs.

Of dýrt að flytja götuna?

Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn segja að miðað við núverandi stöðu sveitarfélagsins séu ekki til fjármunir í þann 100 milljóna aukakostnað sem fylgi því að flytja Nesgötuna.

„Það liggur ljóst fyrir að peningarnir detta ekki af himnum ofan," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, þegar málið var rætt í bæjarstjórn.

„Það sem við erum að tala um aukalega er jafn dýrt og viðbyggingar við leikskólanna á Eskifirði og Reyðarfirði til samans," sagði hann. Fjölgun leikskólabarna á þessum stöðum þýðir að núverandi skólar eru yfirfullir. „Við höfum verið að takast á við 30 milljónir aukalega út af fjölgun leikskólabarna við gerð fjárhagsáætlunar."

Jens benti líka á að víða væri þörf á framkvæmdum í sveitarfélaginu. Aukinn kostnaður við leikskóla þýddi allt framkvæmdafé bæjarins næstu þrjú ár sem myndi benda hendur næstu bæjarstjórnar. „Kannski eru íbúar í Neskaupstað tilbúnir að bíða í nokkur ár þar til hagurinn vænkast aðeins."

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði að færsla götunnar myndi takmarka stækkunarmöguleikana. „Aðrir kostir þrengja mjög að stækkun og við sjáum að sex deilda þörfin er þegar til staðar og rúmlega það. Dagforeldrar hafa leyst biðlistavanda."

Umferðar- og öryggissjónarmið vega þyngst

Fulltrúar Fjarðalistans hafa hins vegar barist fyrir að gatan verði færð þegar málið hefur verið rætt í bæjarstjórn eða í öðrum nefndum sveitarfélagsins. „Ég vil að Nesgatan verði færð til suður áður en byrjað verður að byggja. Þar vega umferðar- og öryggissjónarmið þyngst," sagði bæjarfulltrúinn Eydís Ásbjörnsdóttir.

Hún benti einnig á að samnýting leiksvæðanna og samlegð í starfsmannahaldi myndi skila fjárhagslegri hagræðingu til lengri tíma litið.

Fulltrúar meirihlutans hafa meira að segja tekið undir með minnihlutanum, til dæmis þegar málið var afgreitt í fræðslu- og frístundanefnd. Nefndin bókaði, samhljóða, að Nesgatan skyldi færð til suðurs áður en leikskólinn yrði tekinn í gagnið.

Eru Norðfirðingar til í að bíða?

Þeir hafa heldur ekki lagst gegn hugmyndum um seinkunn byggingarinnar. „Ef við erum að tala um byggingu sem á að endast í fleiri áratugi þá eru 1-2 ár ekki það stórt atriði í heildarmyndinni að það eigi að skipta sköpum," sagði Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans.

Hann velti einnig upp þeirri hugmynd að byrja á að ráðast í framkvæmdir við alla leikskólana þrjá í einu með því að byrja samtímis á að færa veginn í Neskaupstað og byggja við leikskólanna á Eskifirði og Reyðarfirði.

Meirihlutinn hefur hins vegar talað fyrir að ráðast strax í framkvæmdina, meðal annars því beðið hafi verið eftir nýjum leikskóla í Neskaupstað í 20 ár. Framkvæmdin hafi upphaflega verið ákveðin árið 2006 en verið frestað þegar Eignarhaldsfélagið Fasteign gat ekki fjármagnað hana árið 2007.

Í kjölfarið hafi sveitarfélagið tekið við málinu en því verið slegið á frest eftir að lánalínur lokuðust í hruninu 2008. Þeir vilja einnig meina að þótt ekki sé fjárhagslega mögulegt að færa götuna strax geti svigrúm til þess skapast síðar meir. Tíminn hafi hins vegar verið nýttur í undirbúning, meðal annars í yfirferð á teikningum.

Íbúar geta komið að skipulagsferlinu

Fleiri lausnir hafa einnig verið nefndar, til dæmis að vera með deild inni á Kirkjumel þar sem áður var leikskóli.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi nefndi Elvar möguleikann á að setja málið í íbúakosningu. Það væri hins vegar galli að aðeins Norðfirðingar kysu um „meðferð skattpeninga allra íbúa Fjarðabyggðar. Það væri hins vegar gott að fá leiðbeinandi kosningu."

Fulltrúar meirihlutans bentu hins vegar að opið ferli við deiliskipulagið þar sem íbúar gætu komið sínum athugasemdum á framfæri kæmi í stað kosningarinnar. „Skipulagsferlið er framundan og enn hægt að gera athugasemdir," sagði Eiður Ragnarsson.

Séð yfir væntanlega leikskólalóð í Neskaupstað með Nesgötuna í forgrunni. Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.