Neseyri: Ef stærsta framkvæmdin er ekki kosningamál, hvað er það þá?

neseyri leikskolalod khFulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segja Framsóknarflokkinn ekki standa við gefin fyrirheit um að færa Nesgötu fyrir byggingu nýs leikskóla í Neskaupstað. Framsóknarmenn segja að við nánari skoðun hafi komið í ljós að fýsilegri kostur sé að hafa götuna áfram á núverandi stað.

„Ég öfundaði Framsókn af þessu loforði," sagði Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, á bæjarstjórnarfundi fyrir skemmstu. „Ég er nokkuð viss um að það fóru atkvæði til Framsóknarflokksins á Norðfirði út á þetta."

Töluvert hefur verið tekist á um skipulag í kringum væntanlegan leikskóla á Neseyri að undanförnu og má segja að menn skiptist þar í tvær fylkingar. Annars vegar að færa Nesgötu niður fyrir skólann að eyrinni og þá sem vilja halda henni á núverandi stað.

Þeir sem vilja flytja götuna bera fyrir sig öryggissjónarmið en hinir að það kosti 100 milljónum meira að flytja götuna auk þess sem það rýri stækkunarmöguleika skólans.

„Framsóknarflokkurinn vildi skoða að flytja götuna og það var í kosningastefnuskrá okkar. Þetta er samt niðurstaðan sem við stöndum frammi fyrir núna þegar við höfum rýnt þetta mál," sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Hann sagðist einnig vona að menn hefðu kosið hann um alla Fjarðabyggð en ekki bara í Neskaupstað. Jón Björn benti á að sex deilda skóli rúmi varla núverandi fjölda leikskólabarna og ekki sé hægt að stækka hann í átta miðað við þá leið sem Framsóknarmenn hafi helst viljað fara.

Umræður spunnust um hvort leikskólabyggingin væri orðin að kosningamáli og sagði Eiður Ragnarsson, Framsóknarflokki, halda að „ljóst væri" að málið væri orðið það.

Því svaraði Elvar: „Ef stærsta framkvæmd í A-hluta á kjörtímabilinu er ekki kosningamál, hvað er það þá?"

Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, rifjaði upp miklar deilur í kringum byggingu leikskóla á Eskifirði fyrir nokkrum árum á mörkum snjóflóðasvæðis.

„Það ætlaði allt á aðra hliðina en var dottið í dúnalogn áður en leikskólinn var kláraður. Við megum ekki gleyma okkur í stundarhita þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar."

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.