Norræna: Þingmenn styðja ekki uppbyggingu annarrar ferjuhafnar
Þingmenn Norðausturkjördæmis hafa sent Seyðfirðingum yfirlýsingu um að þeir séu ekki tilbúnir að styrkja uppbyggingu annarra hafna til að geta tekið við Norrænu. Forráðamenn Smyril-Line hafa ekki orðið við óskum Seyðfirðinga um viðræður um framtíð ferjusiglinganna en hafa hins vegar fundað með fulltrúum Fjarðabyggðar. Framkvæmdastjóri Smyril-Line segir fyrirtækið ekki tilbúið að bíða eftir göngum undir Fjarðarheiði.„Á undanförnum árum hafa umtalsverðir fjármunir verið lagðir í uppbyggingu mannvirkja tengt ferjusiglingum til Seyðisfjarðar af hálfu ríkisins. Ekki er vilji til að setja fjármuni í sambærilega uppbyggingu annars staðar," segir í bréfi sem allir þingmenn Norðausturkjördæmis rita bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar.
Tilefnið er vilji Smyril-Line, rekstrarfélags ferjunnar Norrænu, til að kanna aðra hugsanlega viðkomustaði en Seyðisfjörð en forsvarsmenn félagsins hafa óskað eftir viðræðum við Fjarðabyggð.
Í bréfi þingmannanna segir að þeir hafi fundað um samgöngumál Seyðisfjarðar og þá stöðu sem upp sé komin varðandi vetrarsiglingar Norrænu. Áhyggjum er líst af stöðu byggðarlagsins leggist þær af og heitið viðræðum við Vegagerðina og innanríkisráðherra um úrbætur á vetrarþjónustu á Fjarðarheiði í kringum komudaga ferjunnar.
Aðallega áhugi Smyril-Line á Fjarðabyggð
Í samtali við Austurfrétt staðfesti Páll Björgin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, að forsvarsmenn sveitarfélagsins hefðu setið einn fund með forsvarsmönnum Smyril-Line. Hann ítrekaði að um könnunarviðræður væri að ræða og málið „aðallega verið skoðað hjá Smyril-Line."
Forsvarsmenn Seyðisfjarðar hafa óskað eftir viðræðum við Færeyingana en ekki fengið. Á íbúafundi í síðustu viku sagðist Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri, tvisvar hafa rætt við framkvæmdastjóra Smyril-Line en aðeins fengið þau svör að um væri að ræða könnunarviðræður. „Ég veit ekki hvort þessar viðræður sem eru í gangi leiða til einhvers," sagði Vilhjálmur.
Miklir fjármunir hafa verið settir í uppbyggingu hafnar á Seyðisfirði sem getur tekið við stórum skemmtiferðaskipum. Fjarðabyggðarhafnir hafa einnig boðið til sín skemmtiferðaskipum, sem tekið er á móti á Eskifirði, en það hefur farið fyrir brjóstið á Seyðfirðingum sem hafa það á tilfinningunni að nágrannarnir séu að stela af þeim viðskiptum.
Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í haust var samþykkt ályktun þar sem sveitarfélögin í fjórðungnum er hvött til að vinna saman að móttöku skemmtiferðaskipa og dreifa kröfunum ekki of víða. Þar er sérstaklega minnst á markaðssetningu hafnarinnar á Seyðisfirði sem helstu ferju- og skemmtiferðaskipahafnar á Austurlandi. Ályktunin var ítrekuð á síðasta stjórnarfundi SSA, meðal annars í ljósi umræðunnar um framtíð Norrænu.
Ekki tilbúnir að bíða eftir göngum
En það er hins vegar Smyril-Line sem ræður ferðinni. Í viðtali við færeyska fréttavefinn in.fo sagði Rúni Vang Poulsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins að aðstaðan á Seyðisfirði væri frábær. Tálminn er hins vegar Fjarðarheiðin og hann telur langt að bíða eftir göngum.
„Við getum tæplega beðið eftir þeim ef við ætlum að auka hlut okkar, bæði í frakt- og farþegaflutningum til og frá Íslandi, neyðumst vil til að auka flutninga á öðrum tímabilum en háannatímabilinu.
Þegar komið er út fyrir það geta menn lent í vandræðum þegar fara þarf yfir svona háa fjallvegi. Okkur finnst við bera skyldu til að kanna þá möguleika sem í boði eru til að auka rekstraröryggi fyrirtækisins."
Farþegarnir aldrei verið fleiri
Af Norrænu er það annars að frétta að aldrei hafa farið fleiri farþegar með skipinu en á þessu ári, 105.000 talsins sem er 13% fjölgun frá í fyrra. Lykillinn að henni eru ferðamenn utan þriggja mánaða sumarvertíðar.
„Vanalega eru júní, júlí og ágúst aðalferðatímarnir en það hefur tekist að lengja háannatímabilið um einn eða tvo mánuði. Það er sérstaklega á þeim markaði sem tækifærið er til vaxtar."
Horfurnar eru taldar enn betri en í fyrra og í samtali við in.fo í morgun sagði Rúni að stefna Smyril-Line væri að styrkja fyrirtækið á þeim mörkuðum sem það hefur verið á, ekki að bæta við áfangastöðum svo sem Skotlandi og Noregi þangað sem ferjan sigldi áður.