AFL: Ekki komist lengra án átaka

hjordis thora sigurthorsdottir aflHjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, segir að menn hafi metið stöðuna þannig rétt væri að skrifa undir nýjan kjarasamning um helgina því lengra yrði ekki komist án átaka og láta á það reyna í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna hvort þeir væru sama sinnis. Hún gefur lítið fyrir gagnrýni formanna nokkurra aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem hún segir hafa brostið kjark til að standa við ákvörðun sem ekki væri fallin til vinsælda.

„Við erum ekki endilega sátt við samninginn en töldum að það væri ekki hægt að ná lengra án átaka," segir Hjördís.

„Við mátum stöðuna þannig að á þessum tímapunkti væru rétt að láta samninginn í dóm félagsmanna."

Skrifað var undir fjölda kjarasamning á laugardagskvöld. Alþýðusamband Íslands semur um ramma utan um samningana en landssambönd verkamanna skrifa hvert fyrir sig undir samninga með nánari útfærslu fyrir þeirra félagsmenn.

Samningsumboð AFLs – var hjá þremur landssamböndum: almennir verkamenn hjá Starfsgreinasambandinu, verslunarmenn hjá Landssambandi íslenskra verslunarmanna og iðnaðarmenn hjá Samiðn.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á samning Starfsgreinasambandsins en af sextán aðildarfélögum sambandsins tóku formenn fjögurra ekki þátt í undirrituninni og fulltrúar þriggja félaga voru fjarverandi.

Helst hefur verið gagnrýnt að lágmarkstaxtar hækki ekki meira en Hjördís bendir á að laun allra hækki um að minnsta kosti 8.000 krónur og laun þeirra tekjulægstu meira.

Félögin sem ekki skrifuðu undir sjálf höfðu hins vegar veitt þeim fulltrúum sem skrifuðu undir umboð til að gera það í sínu nafni.

„Við sem skrifuðum undir gerðum það líka fyrir þeirra hönd. Félag getur tekið umboðið til baka alveg fram að þeirri stundu að skrifað er undir.

Það gerði ekkert félag þótt forsvarsmenn þeirra hefðu ekki kjark til að skrifa undir. Það þarf líka kjark til að taka ákvarðanir sem ekki er víst að verði vinsælar," segir Hjördís.

Við tekur kynning á samningunum og atkvæðagreiðslur sem verða þrjár hjá AFLi, ein um hvern samning.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.