Erlendir ferðamenn sátu pikkfastir á leiðinni á Mývatn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jan 2014 20:06 • Uppfært 02. jan 2014 20:08
Björgunarsveitin Vopni var kölluð út í gærkvöldi til að bjarga erlendum ferðamönnum í vandræðum á Möðrudalsöræfum.
Sveitin var kölluð út seint í gærkvöldi til bjargar fimm japönskum ferðamönnum sem fest höfðu bílaleigubíl sinn á Möðrudalsöræfum, rétt hjá afleggjaranum til Vopnafjarðar.
Á Facebook-síðu sveitarinnar segir að ferðamennirnir hafi ákveðið að fara frá Egilsstöðum eftir kvöldmat í Dimmuborgir þar sem þeir áttu bókaða gistingu, þrátt fyrir að vegurinn væri skráður ófær og ekkert verið ruddur á nýársdag.
Björgunarsveitin Gerpir var kölluð út á nýársnótt til að losa bíla á Oddsskarði sem stóðu fastir fyrir ruðningstæki. Losa tókst bílana án aðstoðarsveitarinnar og ruðningstækið komst sína leið.
Um klukkan sex í gær aðstoðaði björgunarsveitin Brimrún á Eskifirði við sjúkraflutning yfir Oddsskarð. Snjóplógur var með í för og gekk ferðin vel.