Gulleggið: Keppni fyrir frumkvöðla
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetrið Innovit stendur fyrir keppninni um Gulleggið. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir athafnafólk til að fá þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda.Gulleggið er ein vinsælasta frumkvöðlakeppni sem haldin er á Íslandi og er öllum heimilt að taka þátt. Keppnin að fyrirmynd MIT háskóla í Bandaríkjunum og VentureCup á Norðurlöndunum.
Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Þannig er keppnin orðin gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og fyrir frumkvöðla sem munu á næstu árum laða að enn fleiri fjárfesta, skapa ný störf og verðmæti fyrir íslenskt þjóðfélag.
Keppnin er tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum í samstarfsháskólum Gulleggsins boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.
Þátttaka í Gullegginu er krefjandi áskorun sem nýtist þátttakendum til framtíðar. Frumkvöðlakeppnin er þrískipt og byggir fyrst á mótun viðskiptahugmynda, næst á gerð viðskiptaáætlana og síðast á kynningu fyrir hópi sérfræðinga og fjárfesta.
Umsóknarfrestur er til 20. janúar og í fyrsta áfanga er nóg að skila inn stuttri lýsingu á viðskiptahugmyndinni. Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á www.gulleggid.is
Alcoa Fjarðaál er einn af styrktaraðilum Gulleggsins. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Clara, Pink Iceland og Tónlistarskóli Maximúsar.