Pósturinn vinnur að færslu póstkassa í dreifbýli
Pósturinn vinnur nú að samræmingu á staðsetningu bréfakassa í dreifbýli. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að 90% póstkassa séu nú þegar rétt staðsettir. Móttökuskilyrði skipta máli fyrir hagkvæmni í dreifingu.Pósturinn þjónar um 6.000 heimilum í sveitum landsins og skiptir staðsetning bréfakassa miklu máli varðandi hagkvæmni í dreifingu því bréfum hefur fækkað mikið á síðustu árum.
Markmið fyrirtækisins er að afhenda póst til móttakenda á réttum stað og á réttum tíma og er því mikilvægt að tryggt sé að móttökuskilyrði séu skv. lögum og reglum, en þau er meðal annars, rétt utanáskrift, rétt hæð bréfalúga, gott aðgengi að lúgu og rétt staðsetning á bréfakössum í sveitum.
Þessi vinna hefur gengið vel og yfir 90% bréfakassa eru rétt staðsettir í dag samkvæmt reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu, en þar segir meðal annars:
„Í dreifbýli skal bréfakassi vera staðsettur við eða í húsi ef lengd heimreiðar er ekki lengri en 50 metrar. Ef heimreið er lengri en 50 metrar skal bréfakassi staðsettur við vegamót. Bréfakassi skal ekki vera staðsettur fjær en 500 metra frá húsi að jafnaði, undantekning er ef heimreið er yfir 2.000 metrar að stöku heimili."