Björgunarsveitin Hérað kölluð þrisvar út í gær til að aðstoða fólksbíla
Björgunarsveitin Hérað var þrisvar sinnum kölluð út í gærkvöldi til að bjarga ferðamönnum á Jökuldal og Háreksstaðaleið. Útköllin tóku samanlagt um fimm klukkutíma.Það var um klukkan 18:00 sem hjálparbeiðni barst frá þremur erlendum ferðamönnum sem voru á leiðinni austur frá Mývatni. Þeir höfðu fylgt vegvísun GPS tækis sem leiddi þá niður á gamla vegaslóðann niður í Jökuldal. Þar var mikil hálka þannig bíll þeirra fór út af í beygju og sat fastur utan vegar.
Tveimur tímum síðar, þegar búið var að losa bílinn og koma niður í Skjöldólfsstaði, barst önnur beiðni um aðstoð en tveir fólksbílar sátu fastir á Háreksstaðaleið, um 7 km norðan við afleggjarann til Vopnafjarðar.
Mikill snjór var á veginum og tók það björgunarsveitarmenn um þrjá tíma að aðstoða ferðafólkið niður í Jökuldal þaðan sem það gat haldið áfram leið sinni í Egilsstaði.