Unnið að bættri umferðarmenningu í Fjarðabyggð: Bæjarstjórinn stóð sjálfur vaktina
Frestur almennings til að senda inn ábendingar við endurskoðun á umferðarsamþykkt Fjarðabyggðar rennur út á mánudag. Vinna við breytingarnar hefur staðið yfir síðustu mánuði og til að setja sig inn í málið stóð bæjarstjórinn meðal annars umferðarvaktina með foreldrafélagi grunnskólans í Neskaupstað.„Ég stóð sjálfur vaktina með formanni foreldrafélagsins til að kynna mér málið. Það var mjög fróðlegt að vera þarna. Um leið og bílstjórar sáu endurskin frá vesti hægðist mjög hratt á umferðinni," segir Páll Björgin Guðmundsson, bæjarstjóri.
Mikil umræða hefur verið um umferðaröryggismál í sveitarfélaginu síðustu misseri, einkum í nágrenni skóla. Umferðaröryggismál voru aðal umræðuefnið við skipulag í kringum væntanlegan leikskóla í Neskaupstað en einnig hefur borið á umræðu um stöðuna á Reyðarfirði þar sem umferðargata og bílastæði eru á milli leik- og grunnskólanna.
Í aðsendri grein hér á Austurfrétt í nóvember benti Guðný Rúnarsdóttir á að bílastæði við leikskólann lægi þannig að bakkað væri út á gangbraut. Eftir birtingu greinarinnar var stæðinu lokað.
Í tillögunum felst meðal annars að almennur umferðarhraði í þéttbýliskjörnunum fimm verði 35 km/klst í stað 50 eins og var áður á flestum stöðum. Í völdum götum verður hraðinn ýmist meiri eða minni, til dæmis er gert ráð fyrir að í Neskaupstað verði Skógavegi og Ekrustíg breytt í vistgötur en hámarkshraði í þeim er 15 km/klst.
Samhliða endurskoðun umferðarsamþykktarinnar er unnið að bættri umferðarmenningu í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn samþykkti fyrir jól að koma á hóp samráðshópi sem leggi sérstaka áherslu á umferð við skóla, leikvelli og íþróttasvæði. Í hópnum sitja fulltrúar frá sveitarfélaginu, lögreglunni og foreldrafélögum grunnskólanna.
Í samtali við Austurfrétt sagði Páll Björgvin að fræðsla væri lykillinn að bætti umferðarmenningu. „Við ættum að geta frætt bæði börnin og okkur sjálf um þessi mál. Lykilatriðið er fræðsla, bæði til foreldra og barna."
Nánari upplýsingar um endurskoðun umferðarsamþykktarinnar og vinnu við bætta umferðarmenningu í Fjarðabyggð má nálgast hér á vef sveitarfélagsins.