Þrjú sveitarfélög hækka ekki gjaldskrár: Mesta hækkunin í Breiðdal

breiddalsvik1 ggÞrjú sveitarfélög á Austurlandi hækkuðu ekki gjaldskrár sínar um nýliðin áramót. Annars staðar hækka valdar gjaldskrár í takt við spár um verðbólgu. Umfangsmestu gjaldskrárhækkanirnar eru í Breiðdalshreppi.

Það var stjórn AFLs sem réðist í könnun á gjaldskrárbreytingum sveitarfélaganna tíu á félagssvæðinu í tengslum við kjarasamninga. Skorað var á austfirsku sveitarfélögin að leggja þar sitt af mörkum til að halda verðbólgunni í skefjum með því að hækka ekki gjaldskrár sínar.

Engar hækkanir eru hjá Borgarfjarðarhreppi, Fljótsdalshreppi eða Djúpavogshreppi.

Spáð er 3,5% verðbólgu á næsta ári en gjaldskrá Vopnafjarðarhrepps hækkar um þá prósentu.

Í Fjarðabyggð hækka tónlistarskólagjöld um 10%, árgjald á bókasöfnum um 4,3%, leikskólagjöld og morgunhressing og hádegismatur þar um 3%.

Aðgangur að sundlaugum hækkar um 20%, árskort um 6,7% og 6 mánaða kort um 5,3%. Gjald fyrir 6-18 ára er hins vegar óbreytt nema að aldursmarkið hækkar úr 16 árum í átján. Þá hækkar tími í líkamsrækt um 5,3% og 12 mánaða kort um 4,3%

Vistunargjald á skólaheimilum hækkar ekki né heldur aðgangur að söfnum.

Sorphirðugjöld hækka á Fljótsdalshéraði um 2,5-3% en þau hafa ekki staðið undir kostnaði að undanförnu. Aðrar gjaldskrár hækka verða að mestu óbreyttar.

Í sveitarfélaginu Hornafirði hefur verið tekið upp nýtt kerfi við sorphirðu sem kallar á breytingar á sorphirðugjöldum. Tónskólagjöld og leikskólagjöld hækka í samræmi við vísitölu, leikskólagjöldin þó ekki fyrr en í ágúst.

Á Seyðisfirði hækka gjaldskrár um 3,6%. Bæjarráð var búið að ákveða 5% hækkun en hún var dregin til baka eftir að spár um verðbólgu lækkuðu.

Miklar hækkanir eru á flestum gjaldskrám Breiðdalshrepps. Nefna má að sorphirðugjöld hækka um 15-30% og leiga á íbúðum í eigu sveitarfélagsins um þriðjung. Sama hækkun er á katta- og hundaleyfum.

Boðið er upp á heilt og hálft tónlistarnám en áður miðaði gjaldskráin við það hvort nemandi var í grunn- eða framhaldsskóla. Fullt tónlistarnám er 90% dýrara en grunnskólagjaldið var og hálfa námið 22%.

Hækkanir í leik- og grunnskólum eru innan við 10% og eins hækkar garðþjónusta fyrir eldri borgara ekki nema um 4%.

Öll sveitarfélögin, nema Fljótsdalshreppur fullnýta útsvarsheimild upp á 14,52%. Í Fljótsdal er útsvarið 13,20%.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.