Loðnuskipin byrjuð að veiða fyrir norðan land
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. jan 2014 12:56 • Uppfært 10. jan 2014 12:57
Loðnuvertíðin er hafin en nokkur skip köstuðu nót í gær en trollveiðar máttu hefjast á miðnætti. Þau eru samt að þreifa fyrir sér með veiðistaði.
Aðalsteinn Jónsson er kominn með 170 tonn um borð eftir fyrsta hol. Skipið er að veiðum um 50 sjómílur norður af Grímsey.
„Það gekk sæmilega. Þeir telja samt mun betri lóðningar í suðurlínu og að talsvert magn sé þar á ferðinni. Þeir mega samt ekki fara þangað enn," sagði Þorsteinn Kristjánsson í samtali við Austurfrétt í morgun.
Óvíst er hvenær skipið kemur að landi en aflinn verður frystur um borð. Þess er beðið að Árni Friðriksson, skip Hafrannsóknastofnunar, leggi úr höfn til að leita að loðnu.
Skip Síldarvinnslunnar eru einnig mætt til veiða. Börkur NK fékk 250 tonn í fyrsta holi norður af Melrakkasléttu. Birtingur sótti loðnunótina í gær og fer til veiða á næstu dögum.
Skip HB Granda, Ingunn og Faxi, eru einnig af veiðum á sama svæði.