Kjarasamningar kynntir: Próf á hvort allir aðilar standi við sitt til að markmiðin náist
Austurlandsdeild VR stendur þessa dagana fyrir kynningu á nýgerðum kjarasamningum félagsins. Yfirskrift kynningarferðarinnar er „sýnum samstöðu og ábyrgð," sem nær til allra þeirra sem koma að samningunum.Fundur var haldin með félagsmönnum á Egilsstöðum fyrir helgi en næsti fundur verður á Hótel Austur á Reyðarfirði klukkan 19:30 annað kvöld.
VR var eitt þeirra félaga sem skrifaði undir nýjan kjarasamning skömmu fyrir jól. Samningurinn er til eins árs og í honum er gert ráð fyrir 2,8% almennri launahækkun og sérstakri hækkun lægstu launa. Þá er skerpt á fleiri ákvæðum, einkum um ráðningarsamninga.
Kristín María Björnsdóttir, formaður deildarinnar, segir að á fundinum á Egilsstöðum hafi verið rætt um gildistíma samningsins og breytt vinnubrögð við kjarasamningsgerð.
„Menn ræddu að þetta væri í raun aðfararsamningur og hluti af samningnum væri að unnið væri eftir sérstakri viðræðuáætlun fyrir næsta samning sem gæti orðið langtímasamningur. Einnig voru ræddar hækkanir hjá fyrirtækjum og ánægja með að fyrirtæki væru farin að draga þær hækkanir til baka."
Kristín María segir að menn gerir sér grein fyrir sinni ábyrgð og kröfur á að aðrir standi við sín fyrirheit.
„Niðurstaða fundarins var sú að það væri áhugavert að sjá nýja nálgun við gerð kjarasamninga, það þyrfti samstöðu til að þetta gengi. Einn félagsmaður sagði að þetta væri eins og próf, það ætti eftir að koma í ljós hvort megin markmið kjarasamningsins um aukinn kaupmátt og stöðugt verðlag náist eða hvort aðrir falli á prófinu."