Pétur Heimisson ráðinn framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. jan 2014 11:35 • Lorem ipsum dolor sit amet.
Pétur Heimisson, yfirlæknir á Egilsstöðum, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA). Hann tekur við starfinu af Stefáni Þórarinssyni. Talsverðar breytingar urðu á læknaliði stofnunarinnar um áramótin og meðal annars er Jón H. H. Sen kominn aftur læknir til Norðfjarðar.
Í tilkynningu HSA kemur fram að Pétur hafi einn sótt um stöðuna og verið metinn hæfur af stöðunefnd lækna. Hann er sérfræðingur í heimilislækningum og hefur starfað sem slíkur á Egilsstöðum frá árinu 1988, þar af síðustu ár sem yfirlæknir.
Stefán Þórarinsson lét af störfum um áramót en hann býr áfram á Egilsstöðum og verður viðloðandi HSA enn um sinn. Hann kom austur árið 1976, var héraðslæknir Austurlands frá 1982 og framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA frá 2000.
Óttar Ármannsson, sérfræðingur í heimilislækningum hefur tekið við af Pétri sem yfirlæknir á Egilsstöðum.
Fleiri breytingar hafa orðið á læknaliði HSA. Jón H. H. Sen, sérfræðingur í skurð- og bráðalækningum hefur verið ráðinn skurðlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN) þar sem hann vann um árabil. Aðrir vanir skurðlæknar sinna 50% starfinu á móti honum.
Í yfirlýsingu forstjóra HSA, Kristínar B. Albertsdóttur, segir að ráðning hans sé sérstakt fagnaðarefni þar sem ekki hafi verið fastur skurðlæknir við FSN um nokkurt skeið.
Ólafur Guðgeirsson sérfræðingur í heila- og taugaskurðlækningum, sem starfað hefur sem heilsugæslulæknir á Egilsstöðum undanfarin ár, hefur verið ráðinn læknir við heilsugæsluna í Fjarðabyggð frá áramótum. Tveir sóttu um stöðuna.
Þórarinn Baldursson sérfræðingur í heimilislækningum, sem starfaði í Fjarðabyggð frá árinu 2006 og sem yfirlæknir frá 2010, var ráðinn læknir á Djúpavogi í október sl. Tveir sóttu um þá stöðu.