Stillt upp hjá Fjarðalistanum: Elvar og Eydís gefa ekki upp hvort þau haldi áfram
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. jan 2014 11:30 • Uppfært 16. jan 2014 11:31
Uppstillinganefnd er að störfum hjá Fjarðalistanum, framboði félagshyggjufólks í Fjarðabyggð, fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Tveir af þremur bæjarfulltrúum gefa ekki upp opinberlega hvort þeir gefi kost á sér áfram.
„Það hefur ekki verið ákveðið hvenær listinn verður tilkynntur en nefndin er að störfum og gengur vel. Það er von á öflugum lista félagshyggjufólks í Fjarðabyggð í vor," segir Ásbjörn Þorsteinsson, talsmaður uppstillinganefndarinnar.
Listinn á þrjá fulltrúa í bæjarstjórn í dag: Elvar Jónsson, Eydísi Ásbjörnsdóttur og Esther Ösp Gunnarsdóttur.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar var Esther sú eina sem staðfesti að hún gæfi kost á sér áfram. „Ég hef ákveðið að gefa kost á mér á framboðslista Fjarðalistans áfram. Nú er uppstillingarnefnd með þetta í sínum höndum svo það liggur ekkert fyrir um hvernig listinn mun verða skipaður ennþá."
Eydís og Elvar sögðust hins vegar ekkert gefa upp um hvort þau gæfu áfram kost á sér til að vera áfram í bæjarstjórnarsætum fyrr en listinn yrði birtur.