Skip to main content

13% aukning umferðar á Egilsstaðaflugvelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. apr 2022 15:27Uppfært 05. apr 2022 16:01

Nokkur fjölgun var á farþegum og umferð um Egilsstaðaflugvelli á síðasta ári. Malbikun vallarins síðasta sumar var stærsta einstaka framkvæmdin í innanlandsflugvallakerfinu,


Þetta kemur fram í ársskýrslu Isavia, sem kynnt var á aðalfundi félagsins í gær. Eðlilegt er þó að flugumferð aukist eftir hrun í henni árið 2020.

Fram kemur að farþegum í millilandaflugi á Egilsstöðum hafi fjölgað um 12,3% og 61% á landsvísu. Flughreyfingum, lendingum og flugtökum, fjölgaði um 13% á Egilsstöðum og 33% á öllum flugvöllum Isavia.

Isavia rekur milliríkjaflugvöllinn í Keflavík og þrjá varaflugvelli fyrir hann, á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík auk níu milli valla undir reglubundið innanlandsflug. Til viðbótar eru 30 aðrir lendingastaðir.

Stærsta framkvæmd ársins á innanlandsvöllum á síðasta ári var malbikun flugbrautarinnar á Egilsstaðaflugvelli, sem gekk afar vel í júlí og ágúst. Þá var unnið að hönnun aðflugsljósa fyrir vellina í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum á síðasta ári en því verkefni verður haldið áfram. Þá var unnið að hönnun flugbrautarljósa fyrir lendingarstaðinn á Norðfirði. Þau eru í útboði og eiga að vera tilbúin um miðjan júní.

Um mögulegt millilandaflugvöll um vellina á Akureyri og Egilsstöðum segir í ársskýrslunni að markaðssetning þeirra hafi verið efld í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna. Niðurstaðan hafi verið að bæta enn frekar í samvinnu svæðanna. Þriggja ára verkefni hefur verið sett upp milli þessara aðila og Íslandsstofu við að kynna vellina, innviði og þjónustu vallanna sem og áfangastaðina. „Erlend flugfélög hafa sýnt þessu áhuga.“

Sveinbörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir í ávarpi sínu að Covid-19 faraldurinn hafi farið illa með Isavia innanlandsflugvalla, dótturfélags Isavia, sem reki innanlandsflugvellina samkvæmt þjónustusamningi við íslenska ríkið. Ríkið hafi ákveðið að draga ekki úr þjónustu á völlunum og hafi bætt við greiðslum vegna þessa. „Staða innanlandsflugvallakerfisins er engu að síður alvarleg enda hefur það verið vanfjármagnað frá íslenska ríkinu um margra ára skeið,“ segir þar.

Formaðurinn Orri Hauksson varar við að fjármagn verði flutt frá rekstri flugvallarins í Keflavík til annarra flugvalla til að mæta þeirra valla. Það verði til þess að draga úr framkvæmdum í Keflavík sem komið geti niður á starfseminni þar, sem sé í alþjóðlegri samkeppni. Áætlanir eru um fjárfestingar þar upp á 50 milljarða á næstu fimm árum.

Orri lét af störfum á fundinum. Í stað hans kemur Kristján Þór Júlíusson, fyrrum ráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis.