13 þúsund tonna meiri kolefnislosun hjá Síldarvinnslunni vegna raforkuskorts
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jún 2023 16:49 • Uppfært 20. jún 2023 16:51
Kolefnisspor Síldarvinnslunnar jókst umtalsvert á síðasta ári þar sem nota þurfti olíu í stað rafmagns við að keyra fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað framan af ári. Á sama tíma minnkaði olíunotkun skipanna.
Þetta kemur fram í samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir síðasta ár. Heildarkolefnisspor fyrirtækisins í fyrra var 72.455 tonn sem er aukning um 20 þúsund tonn milli ára. Rúm 8000 tonn skýrast af því að losun Vísis, sem Síldarvinnslan keypti um mitt ár, er tekin með.
Stærri skýring er hins vegar að losun frá fiskimjölsverksmiðjunni fer úr tæpum 3.800 tonnum í 20.000, eykst um rúmlega 16.300 tonn. Í skýrslunni er bent á að undanfarin ár hafi verið fjárfest mikið í búnaði þannig að hægt væri að keyra bræðslurnar á rafmagni í stað olíu.
Þar sem raforkuframleiðslan var með minna móti frá sumri 2021 fram eftir vetri 2022 var skrúfað fyrir rafmagn til viðskiptavina sem kaupa skerðanlega orku. Það þýddi að eldsneytisnotkun fiskimjölsverksmiðanna jókst um sjö milljónir lítra á milli ára. Í skýrslunni segir að kolefnislosunin hefði verið 13 þúsund tonnum minni ef þær hefðu haft ótakmarkaðan aðgang að rafmagni.
Síldarvinnslan rak tvær fiskimjölsverksmiðjur. Sú í Neskaupstað er að fullu rafvædd en bræðslan á Seyðisfirði aðeins að hluta. Þær fengu samanlagt 46,2% af afli sínu úr endurnýtanlegri orku í fyrra í stað 80% árið áður.
Eldsneytisnotkunin er stærsti einstaki umhverfisþátturinn í rekstri Síldarvinnslunnar. Á sama tíma og meiri olíu þurfti í bræðslurnar dróst notkunin saman hjá skipunum, sérstaklega þegar horft er til þeirra lítra sem þurfti til að veiða hvert tonn. Skipin notuðu alls 16,2 milljónir lítra, tveimur milljónum minna en árið áður. Olíueyðsla á hvert tonn fór úr 82 í 52 lítra.
Þar spila umhverfisþættir inn í því göngumynstur fiskistofna og veðurfar hefur áhrif á siglingar skipanna. Í fyrra fóru til dæmis veiðar á loðnu og kolmunna fram nær landi en árið áður. Eins var þetta fyrsta heila árið sem nýr Börkur var í rekstri, en hann kom til Norðfjarðar beint úr skipasmíðastöð í Danmörku fyrir sjómannadaginn 2021.
Um svipað leyti tók Síldarvinnslan einnig í notkun búnað þannig skipin eru tengd við rafmagn úr landi meðan þau landa. Sá búnaður er talinn geta sparað 300.000 lítra af olíu á ári.