Flúormengun frá álverinu: Hætta á skemmdum í fé frá Sléttu

alver alcoa april2013Hætta er á skemmdum af völdum flúormengunar frá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði í kindum í firðinum. Talsmenn fyrirtækisins segja að verið sé að leita leiða til að koma í veg fyrir mengunina.

Náið er fylgst með þróun flúors í Reyðarfirði eftir mengunarslys sumarið 2006 en efnið getur haft skaðleg áhrif á grasbíta. Þannig er fylgst með bæði hestum og kindum í firðinum.

Við mælingar á sláturfé frá bæjunum Sléttu og Þernunesi í haust kom fram „tiltölulega hátt flúorinnihald" í fullorðnum kindum frá Þernunesi og „tiltölulega hátt" innihald í bæði ungu og gömlu fé frá Sléttu.

Í skýrslu Tilraunastöðvar landbúnaðarins, sem annaðist mælingarnar, kemur fram að niðurstöðurnar gefi til kynna að „hætta er á flúorskemmdum í fé frá Sléttu."

Innihaldið er meira en í fyrra en það gæti skýrst af því að kindurnar sem skoðaðar voru í sláturhúsi voru eldri.

Lifandi dýr eru einnig sjónskoðuð en við þær skoðanir hafa ekki sést breytingar á tönnum eða kjálkabeinum sem benda til flúormengunar. Í ráðleggingum dýralæknis kemur þó fram að betra sé að skoða dýr sem gangi á mesta hættusvæðinu frekar en taka slembiúrtak úr stofninum.

Bændur á svæðinu hafa lýst yfir áhyggjum af þróuninni. Í tilkynningu frá Fjarðaáli er því lýst yfir að unnið sé með bændum á svæðinu og eftirlitsstofnunum að því að rannsaka og fylgjast með þróuninni og finna lausnir á vandanum.

„Gildin eru nokkuð hærri en við hefðum kosið að sjá en þó innan hættumarka," segir í yfirlýsingunni. „Alcoa Fjarðaál er eitt tæknilega fullkomnasta álver heims og notar aðeins besta tæknibúnað sem völ er á til að lágmarka umhverfisáhrif vegna starfseminnar.

Að því markmiði vinnum við með sérfræðingum fyrirtækisins enda leitar Alcoa stöðugt nýrra tækifæra til að draga enn meira úr neikvæðum áhrifum starfseminnar."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.