Norðfjarðargöng: Rigningar tefja fyrir undirbúningi Norðfjarðarmegin

jan21012013 1Svokölluð sáttanefnd, sem ætlað er að leysa úr mögulegum ágreiningi við gerð nýrra Norðfjarðarganga, mætti á svæðið í kynnisferð í síðustu viku. Miklar rigningar hafa tafið fyrir undirbúningi Norðfjarðarmegin.

Í lok síðustu viku höfðu verið grafnir alls 405,7 metrar, eða 5,3% af heildarlengd ganganna. Framvinda vikunnar var 50,7 metrar. Grafið var í víkkuðu sniði, vegna snúningsútskots.

Rauðleitt setlag, sem í upphafi vikunnar var í miðjum stafni, var í vikulokin komið í þak ganganna og farið að hafa áhrif á form þeirra. Það er með þeim hætti að þau verða meira kassalaga, eins og sjá má á mynd 4.

Sáttanefnd kom í vikunni að kynna sér aðstæður. Sáttanefndin er tilnefnd af báðum aðilum verks, verkkaupa og verktaka og er hlutverk hennar að leysa úr ágreiningi er upp kann að koma í tengslum við jarðgangagröftinn. Nefndin kemur að minnsta kosti einu sinni á ári að kynna sér aðstæður.

Einnig hefur verið unnið í undirbúningi fyrir gangagröft í Fannardal en verið er að hreinsa ofan af klöppinni. Væntanlega verður byrjað að sprengja fyrir gangamunnanum þar nú í vikunni, svo eiginlegur gröftur geti þá hafist um miðjan febrúar.

Miklar rigningar undanfarið hafa þó ekki auðveldað jarðvinnuframkvæmdir utan ganga.

Á næstunni má svo búast við að vinna við vegagerð í átt að landfyllingarsvæðum í Eskifirði hefjist. Byrjað verður á svæðinu sunnan við sundlaugina og verður þá einhver umferð vörubíla sunnan byggðarinnar vestan sundlaugarinnar.

Mynd 1: Sáttanefndin kynnti sér aðstæður í jarðgöngunum. Frá vinstri: Alfred Schulter, Eivind Grøv og Björn Stefánsson.

Mynd 2: Sáttanefndin kynnti sér aðstæður í jarðgöngunum. Frá vinstri: Alfred Schulter, Björn Stefánsson og Eivind Grøv. Fjær standa Gísli Eiríksson frá Vegagerðinni og Eysteinn Dofrason hjá Suðurverki.

Mynd 3: Rauðleitt setlag er ofan við miðjan stafn. Neðan við það er kargi og basalt.

Mynd 4: Setlagið er komið í þak ganganna og farið að hafa áhrif á form þeirra.

Ljósmyndir: Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa

jan21012013 2jan21012013 3jan21012013 4

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.