Fjarðaál þarf að draga saman annað árið í röð: Verðum að geta treyst á örugga orku

magnus thor asmundsson alcoaUndirbúningur er hafinn að því að draga úr framleiðslu Alcoa Fjarðaáls eftir að Landsvirkjun tilkynnti fyrirtækinu að hún gæti mögulega ekki skaffað fyrirtækinu þá raforku sem það þarf. Þetta er í annað skiptið á innan við tólf mánuðum sem Fjarðaál þarf að grípa til ráðstafana vegna þess. Forstjóri Alcoa á Íslandi segir að finna verði varanlega lausn á orkumálunum því fyrirtækið verði að geta treyst á örugga orku.

„Við gætum þurft að stöðva 10% af kerum okkar tímabundið með tilheyrandi framleiðslu- og tekjutapi," segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi.

Í síðustu viku tilkynnti Landsvirkjun fyrirtækinu um að hún gæti ekki ábyrgst afhendingu á orku vegna lágrar vatnsstöðu í Þóris- og Blöndulónum. Skerðingin er boðuð frá 10. febrúar og til loka apríl sem gæti þýtt minnkun á framleiðslu um 8.500 tonn en álverið framleiðir um 250.000 tonn á ári.

Ekki er gert ráð fyrir að fækka þurfi starfsmönnum vegna þessa en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar þar um.

Þetta er annað árið í röð sem Fjarðaál þarf að grípa til slíkra ráðstafana en fyrirtækið hóf sama ferli í vor vegna lágrar stöðu í Hálslóni. Leysingar björguðu málinu þá. Vatnsstaðan í Hálslóni nú er eins og í meðalári en meira rafmagni er veitt út á byggðalínuna úr Fljótsdalsstöð nú en venjulega.

Í vor var hins vegar erfitt að flytja rafmagn austur þar sem byggðalínan ber ekki það afl sem Fjarðaál þarf. „Landsnetið getur aðeins borið 80 megavött til eða frá svæðinu en við erum með samning um 577 MW. Þar af leiðandi erum við tiltölulega einangruð við Kárahnjúkavirkjun," útskýrir Magnús.

Samkvæmt samningum getur Landsvirkjun skert orku til Fjarðaáls um allt að 58 MW við ákveðnar aðstæður eins og þær sem nú eru uppi.

„Það eru aðstæður sem erfitt er fyrir okkur að vera í. Við erum háð öruggri afhendingu 24 tíma á sólarhring og þurfum að geta treyst á hana. Það þarf að vinna varanlega lausn á málinu," segir Magnús. Hann bendir hins vegar á að það Landvirkjunar en ekki Fjarðaáls að svara til um orkuafhendingu og hugsanlegar lausnir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.